Vörubílastöðin Þróttur stendur á tímamótum en í þessum mánuði fagnar fyrirtækið 90 ára afmæli. „Þróttur var stofnað 9. apríl árið 1931 þegar nokkrar litlar vörubílastöðvar sem voru staðsettar í Reykjavík sameinuðust í eitt félag, sem fékk nafnið Vörubílastöðin í Reykjavík. Nafninu var svo síðar breytt í Vörubílastöðin Þróttur. Upphaflega var félagið stofnað sem stéttarfélag fyrir vörubílstjóra og kom Dagsbrún m.a. að stofnun þess og var það skylda fyrir vörubílstjóra í Reykjavík að vera hluti af félaginu fyrst um sinn," segir Stefán Gestsson, framkvæmdastjóri Þróttar.

Í dag starfa um 70 bílstjórar hjá stöðinni og segir Stefán Þrótt vera eina elstu og öflugustu vörubílastöð landsins. Líkt og Stefán kom inn á að ofan var Þróttur upphaflega stofnað og hugsað sem stéttarfélag fyrir vörubílstjóra.

„Árið 2007 var stofnað formlegt hlutafélag í kringum reksturinn, en stéttarfélagið er ennþá til. Fyrirtækið er í eigu bílstjóranna sem starfa hjá því og eiga þeir hver um sig jafnan hlut í fyrirtækinu. Eignarhaldið er því með svipuðum hætti og tíðkast t.d. hjá leigubílastöðvunum."

Samtvinnuð útþenslu borgarinnar

Hann segir rekstur Þróttar hafa þróast og tekið miklum breytingum í tímans rás. „Reksturinn í dag er ólíkur því sem hann var fyrstu árin. Við erum ekki lengur einungis hefðbundin vörubílastöð þar sem hver og einn bílstjóri rekur sinn bíl, heldur erum við einnig að selja ýmsar framkvæmdavörur á borð við sand og möl. Við höfum því í gegnum tíðina smátt og smátt farið í að sinna þjónustu sem fellur vel að okkar rekstri. Fyrst um sinn snerust verkefnin mest um vinnu fyrir Reykjavíkurborg og kolaakstur á fremur litlum bílum en með tímanum þróuðust verkefnin og bílarnir urðu um leið stærri."

Í dag veitir félagið margvíslega flutningsþjónustu, sinnir ýmiss konar hefðbundinni verktakavinnu, auk þess að veita garðyrkjuog jarðefnaþjónustu. „Við getum gengið í nær öll verk sem tengjast flutningum eða verktöku," segir Stefán.

Fyrstu árin var starfsstöð Þróttar staðsett við Reykjavíkurhöfn, en nokkru síðar fékk félagið lóð á Rauðarárstíg og flutti starfsemi sína þangað. Síðar fluttist starfsstöðin niður í Borgartún og loks fluttist hún niður á Sævarhöfða, þar sem félagið er til húsa í dag. „Þannig hefur Þróttur fylgt útþenslu borgarinnar og saga Reykjavíkurborgar og Þróttar er nokkuð samtvinnuð," segir Stefán. „Nú stöndum við á vissum tímamótum þar sem nýtt deiliskipulag fyrir Höfðann er í vinnslu og því fer að koma tími á flutninga á nýjan leik á næstu árum. Við erum þegar farin að skoða ýmsa möguleika er kemur að framtíðarstaðsetningu."

Stefán segir enn ein tímamótin í sögu félagsins hafa átt sér stað nýlega þegar kvenmaður sótti í fyrsta skipti í 90 ára sögu félagsins um aðild og var umsókn hennar samþykkt. „Hún heitir Indiana Svala Ólafsdóttir, er dóttir annars félagsmanns og kemur þar í hóp fleiri annars ættliðar Þróttara. Indiana er 25 ára og dregur því meðalaldur félagsmanna vel niður."

Farið í gegnum hæðir og lægðir

„Okkur hefur tekist með ákveðinni aðhaldssemi og fyrirhyggju að vera orðin 90 ára. Félagið hefur til að mynda staðið af sér nokkrar kreppur og var félagið stofnað við krefjandi aðstæður, vegna kreppunnar miklu sem hófst árið 1929," segir Stefán. Í raun megi segja að verkefnastaða Þróttar sé ákveðinn vísir á efnahagsástand þjóðarinnar hverju sinni. „Við finnum mjög fljótt fyrir því þegar þrengja fer að og á móti er allt á fullu hjá okkur þegar það árar vel í hagkerfinu. Jarðvegsframkvæmdir eru til að mynda yfirleitt þær fyrstu sem byrja á uppgangstímum en jafnframt þær fyrstu sem hætta þegar þrengir að."

Aftur á móti hafi yfirstandandi kreppa vegna heimsfaraldursins haft þveröfugt áhrif en fyrri kreppur. „Margir landsmenn fóru á fullt í ýmiss konar framkvæmdir við heimili sín og við erum með breitt framboð á þjónustu er viðkemur hinum ýmsu utanhússframkvæmdum. Við þurftum þó að sjálfsögðu að aðlaga reksturinn þeim breyttu reglum sem faraldurinn hefur haft í för með sér, þannig að það fylgdu faraldrinum ýmsar áskoranir," segir Stefán. Hann kveðst bjartsýnn fyrir framtíð Þróttar og hlakkar til áframhaldandi vinnu með borginni er snýr að því að finna nýja staðsetningu fyrir starfsemi félagsins, svo hægt sé að rýma til fyrir þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er á Höfðanum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .