Fótbolti

„Höfum verið límdar saman síðan í Breiðabliki“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hafnfirðingarnir Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir spila báðar í þýsku úrvalsdeildinni.
Hafnfirðingarnir Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir spila báðar í þýsku úrvalsdeildinni. vísir/getty

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir mætti stórvinkonu sinni, sveitunga og samherja í íslenska landsliðinu, Alexöndru Jóhannsdóttur, þegar Bayern München vann 4-0 sigur á Frankfurt í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Með sigrinum tryggði Bayern sér Þýskalandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn síðan 2016. Karólína lék síðustu mínúturnar í leiknum en Alexandra kom inn á sem varamaður í hálfleik.

„Ég hef alltaf þekkt hana enda báðar úr Hafnarfirði. Við vorum saman í yngri landsliðunum en náðum virkilega vel saman þegar við fórum í Breiðablik og höfum verið límdar saman síðan þá,“ sagði Karólína við Vísi.

„Það var mjög gaman að geta knúsað hana eftir leik og hún fékk að fagna aðeins með okkur. Kannski einn daginn munum við sameinast aftur í félagsliði. Það yrði draumur.“

Karólína segir gaman að sjá hversu langt Alexandra er komin á sínum ferli. „Jú, hún er alveg mögnuð og ég veit að hún mun ná rosalega langt,“ sagði Hafnfirðingurinn.

Framundan eru tveir vináttulandsleikir gegn Írlandi á Laugardalsvelli. Það eru síðustu leikir íslenska liðsins áður en undankeppni HM 2023 hefst í haust. Það verða fyrstu keppnisleikirnir undir stjórn Þorsteins Halldórssonar.

„Við þurfum að ná í okkar fyrsta sigur með Steina og sýna honum að við getum unnið einhverja leiki. Þetta verða öðruvísi leikir en gegn Ítalíu og við verðum sennilega meira með boltann. Þetta verður mjög spennandi og ekkert smá gaman að spila á Íslandi fyrir framan áhorfendur,“ sagði Karólína sem á enn eftir að spila A-landsleik hér á landi með áhorfendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×