„Traust og virðing Alþingis er áunnið fyrirbæri“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, flutti sína síðustu eldhúsdagsræðu í …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, flutti sína síðustu eldhúsdagsræðu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, flutti í kvöld síðustu eldhúsdagsræðu sína, en hann tók fyrst sæti á þingi árið 1983. Hann kvaðst hafa gaman af því að standa aftur í sömu sporum og hann gerði sem nýliði á þinginu fyrir rúmum 35 árum, en þá höfðu eldhúsdagsumræður stundum komið í hans hlut.

Hann hóf ræðu sína á að þakka forsætisráðherra og fjármálaráðherra fyrir gott samstarf í tengslum við eflingu Alþingis. Það hafi verið nýmæli í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að svo skyldi gert og Alþingi hafi að nær öllu leyti fengið óskir sínar uppfylltar. Stöðugildum hefði verið bætt við auk þess sem hafist var handa við byggingu myndarlegrar skrifstofubyggingar sem mun spara 100 milljónir árlega sem áður fóru í húsnæðiskostnað, auk þess sem nú muni öll starfsemi Alþingis komast undir sama þak.

Hann sagði Alþingi eiga hrós skilið eftir að hafa afgreitt 60 Covid-frumvörp og þingmál frá því heimsfaraldurinn hófst fyrir 15 mánuðum, en þessi mál voru hrein viðbót við hefðbundin þingstörf.

Aukið traust jákvæð þróun

Steingrímur benti á að traust til Alþingis hafi aukist um 16 prósentustig á síðustu tveimur árum og yrði það að teljast mjög jákvæð þróun.

„Traust og virðing Alþingis er áunnið fyrirbæri,“ sagði Steingrímur og beindi orðum sínum sérstaklega að þingmönnum. Þótt eðlilegt sé að takast stundum á og nauðsynlegt að gagnrýna það sem er gagnrýnivert sagði Steingrímur það ómaklegt og skaðlegt að úthrópa Alþingi og tala niður sitt eigið starf í leiðinni.

„Það er heiður að vera alþingismaður Íslendinga. Því fólki sem hingað inn er kosið er sýndur mikill trúnaður, því er falin mikilvægasta samfélagsþjónusta lýðræðisfyrirkomulagsins.“

Steingrímur sagði að mesta áskorðun samtímans væri loftslagsváin en að okkur kunni að stafa ógn af fleiru. Hann tók þá sérstaklega fyrir þá upplýsingaóreiðu og ofgnótt falsfrétta sem tæknin hefur greitt veginn fyrir. Hann sagði þetta vera lýðræðinu og hinu siðaða samfélagi stórhættulegt, þá ekki síst þegar alþjóðleg auðfyrirtæki vakti hvert fótmál einstaklinga sem búa í þessum samtengda heimi.

„Ætli það reynist ekki eins með tölvutækni, gervigreind og það allt saman og með fjármagnið að hvort tveggja er hættulegur húsbóndi en getur gagnast sem þjónn,“ bætti Steingrímur svo við.

Hann þakkaði heilbrigðisstarfsfólki fyrir unnið þrekvirki og landsmönnum fyrir að hafa farið eftir tilmælum, treyst aðgerðum stjórnvalda og sýnt æðruleysi og úthald sem sumir héldu að Íslendingar ættu ekki til.

Steingrímur sagði að friður og samstaða væri dýrmætasta djásnið á hverju heimili og að hin breiða og almenna samstaða hafi einmitt einkennt andrúmsloftið á Íslandi síðustu 15 mánuði. Hann telur þetta landi og þjóð til sóma og gæfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert