„Eigum að salta þessa umræðu“

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, á hliðarlínunni í leik liðsins …
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, á hliðarlínunni í leik liðsins á dögunum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Valur vann öruggan sjö marka sigur gegn FH í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld. Í hálfleik var staðan hins vegar jöfn. Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, sagðist þó ekki hafa gert neinar breytingar í hálfleik. Hann sagði einnig tímabært að salta umræðu um mikið leikjaálag í deildinni.

„Við breyttum svo sem ekki neinu. Ég var ánægður með fyrri hálfleikinn. Við vildum halda þessu í leik sem lengst. Við þurftum að gera ákveðnar áherslubreytingar á okkar leik út af leikbönnum, meiðslum og veikindum og það fannst mér ganga vel í fyrri hálfleik. Að vera með jafnan leik á móti FH er alltaf fínt, þetta eru tvö góð lið,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is eftir leik.

Hann sagðist búa svo vel að hafa yfir sterkum leikmannahóp að ráða. „Ég vil ekki skýla mér á bak við þessi forföll, ég er með góðan og breiðan hóp og það komu menn inn sem hafa spilað minna og voru geggjaðir. Auðvitað er það ekkert sjálfgefið að menn sem hafa spilað lítið komi inn og brilleri í leik á móti FH.

Þeir gerðu það í dag nokkrir og það var klárlega gott fyrir okkur og ég er rosalega ánægður með þennan sigur. Drengirnir mega líka vera það en það er stutt á milli og við þurfum að láta þetta telja með sigri á föstudaginn,“ sagði Snorri Steinn, en Valur heimsækir stigalaust botnlið ÍR á föstudaginn kemur.

Getur ekki mótmælt núna

Umræða um mikið leikjalág hefur verið áberandi að undanförnu í kjölfar þess að leikmenn í Olísdeildinni hafa verið að meiðast í síðustu leikjum. Spurður um hvað honum þætti um þessa umræðu sagði Snorri Steinn:

„Meiðsli leikmanna eru alltaf grafalvarlegur hlutur og menn hefðu svo sem alveg getað sagt sér það sjálfir að við aukið álag aukist meiðslatíðni. Þetta lá ljóst fyrir þegar við fórum aftur inn í mótið í janúar og ég skil ekki að þessi umræða sé að koma núna upp út af einhverjum meiðslum. Bara sorrí, en þetta lá ljóst fyrir og ég mótmælti þessu ekki þá og get því ekki farið að mótmæla þessu núna.

Að því sögðu er þetta auðvitað mikið álag, ég geri mér alveg grein fyrir því en mér finnst það ekki vera neitt gígantískt. Þetta er bara eins og hjá liðum úti í heimi, í Evrópukeppnum og öðru, sem eru að glíma við þetta.“

Honum þykir því tími kominn til þess að hætta umræðunni um leikjaálagið í deildinni. „Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki atvinnumennska, þetta er áhugamennska og allt það en mér finnst að við eigum bara að salta þessa umræðu og ekki vera að pæla í henni. Ég veit ekkert hvernig þetta var samþykkt en allavega mótmælti ég ekki þessu fyrirkomulagi þegar það lá ljóst fyrir og ég get ekki farið að gera það núna þegar ég er með leikmenn í meiðslum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert