Aðalkeppni heimsmeistaramótsins hefst í Laugardal í dag

Liðið Cloud9 var síðasta liðið til að tryggja sér sæti …
Liðið Cloud9 var síðasta liðið til að tryggja sér sæti í aðalkeppninni. Ljósmynd/Riot Games

Umspili um síðustu tvö sætin í aðalkeppni heimsmeistaramótsins í League of Legends sem haldið er í Laugardal lauk á laugardaginn. Cloud9 og Hanwha Life Esports voru liðin sem nældu sér í síðustu lausu sætin eftir velgengni útsláttarkeppni.

Liðin DetonatioN FocusMe og LNG Esports sigruðu sína riðla í umspilinu og voru fyrstu tvö lið umspilsins til að tryggja sér sæti í aðalkeppninni. Í kjölfarið tryggðu Cloud9 og Hanwha Life Esports sér sæti í útsláttarkeppni umspilsins. Tólf lið höfðu fyrir mótið tryggt sér sæti í aðalkeppninni.

Sextán lið í aðalkeppninni

Sextán lið taka þátt í riðlakeppni aðalkeppninnar sem hefst í dag. Riðlakeppnin er spiluð frá deginum í dag til 13. október, og síðan frá 15. til 18. október. Átta leikir verða spilaðir á dag, og eru allir sýndir í beinni útsendingu. 

Fyrsti leikurinn hefst klukkan 11:00 alla daga, en síðasti leikur dagsins er alltaf klukkan 18:00. Liðin mæta hvor öðru tvisvar sinnum í riðlakeppninni og eru allir leikir best-af-1. Liðin fá stig fyrir hvern sigur eins og í hefðbundnum íþróttum. Efstu tvö lið hvers riðils eftir riðlakeppnina halda áfram í úrslitakeppnina sem hefst þann 22. október, en lokaúrslitaleikurinn verður spilaður þann 6. nóvember.

Fyrsti leikur í dag klukkan 11:00

Liðin DAMWON Gaming og FunPlus Phoenix mætast í fyrsta leik riðlakeppninnar í dag klukkan 11:00. Bæði liðin eru í A-riðli ásamt liðunum Rogue og Cloud9. Í B-riðli eru liðin EDward Gaming, 100 Thieves, T1 og DetonatioN FocusMe.

Liðin PSG Talon, Fnatic, Royal Never Give Up og Hanwha Life Esports mynda C-riðil, og í D-riðli eru MAD Lions, Gen.G Esports, Team Liquid og LNG Esports.

Allir leikir aðalkeppninnar eru sýndir í beinni útsendingu á Twitch rás Riot Games og Stöð2 esport, og hefst fyrstu leikur alla leikdaga klukkan 11:00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert