EFLA þekkingarfyrirtæki er nú aðaleigandi franska verkfræðifyrirtækisins HECLA SAS eftir að gengið var frá kaupum EFLU á eignarhlutum Landsvirkjunar, í gegnum dótturfélagið Landsvirkjun Power, og Jean Chauveau í fyrirtækinu. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þannig eignast EFLA 96,5% hlut í félaginu, en tveir lykilstjórnendur fyrirtækisins eiga samtals 3,5%.

HECLA SAS sérhæfir sig í undirbúningi og hönnun orkuflutningsmannvirkja. Fyrirtækið var stofnað árið 2001 þegar fyrir lágu veruleg verkefni í uppbyggingu orkuflutningskerfa í Frakklandi eftir miklar skemmdir í óveðri um síðustu aldamót. Línuhönnun og Afl, sem síðar urðu hluti af EFLU, stofnuðu fyrirtækið ásamt Landsvirkjun og Jean Chauveau, sem verið hefur framkvæmdastjóri félagsins frá upphafi.

Framundan er fyrirséð gífurleg uppbygging og þróun á orkuflutningskerfum Frakklands ekki síst tengt orkuskiptunum, og býr HECLA yfir verðmætri sérhæfingu í þeirri þróun, að því er kemur fram í tilkynningunni. Stærsti viðskiptavinur HECLA er franska landsnetið RTE sem er sambærilegt Landsneti á Íslandi.

Jean Chauveau lætur nú af störfum sem framkvæmdastjóri HECLA SAS, eftir farsælt starf í yfir 20 ár við uppbyggingu fyrirtækisins. Við þessi tímamót hverfur Landsvirkjun einnig úr félaginu, en Landsvirkjun hefur verið afar mikilvæg kjölfesta í þróun HECLA.

Nýr framkvæmdastjóri HECLA er Christophe Baldet, og faglegur stjórnandi Guy Joubert. Báðir hafa þeir starfað í HECLA í yfir 15 ár.