Hólmar á heimleið?

Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Rosenborg gegn FH á …
Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Rosenborg gegn FH á síðasta ári. mbl.is/Arnþór Birkisson

Knattspyrnumaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson gæti verið á förum frá norska úrvalsdeildarfélaginu Rosenborg. 

Það er fótbolti.net sem greinir frá þessu. Hólmar Örn, sem er 31 árs gamall, er samningsbundinn norska liðinu til næstu tveggja ára en hann hefur verið orðaður við brottför frá félaginu undanfarna mánuði.

Hann gekk til liðs við norska félagið frá Levski Sofia í Búlgaríu árið 2020 en hann hefur einnig leikið með West Ham, Cheltenham, Roeselare, Bochum og Maccabi Haifa á atvinnumannaferli sínum.

Miðvörðurinn hefur verið orðaður við FH, Víking úr Reykjavík og Val að undanförnu en fjölskylda Hólmars flutti heim til Íslands á síðasta ári.

Leikmaðurinn á að baki 19 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað tvö mörk en hann lagði landsliðsskóna á hilluna á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert