Yfirvöld í Rússlandi handtóku í dag yfirmann eins af fremstu tölvuöryggisfyrirtækjum landsins, en hann er sakaður um landráð. Svo virðist sem að stjórnvöld í Rússlandi séu að beita sér gegn fyrirtæki sem starfi með vestrænum ríkjum í baráttunni gegn tölvuárásum.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lýsti fyrr á þessu ári, í samtali við Pútín Rússlandsforseta, yfir áhyggjum af því að rússnesk stjórnvöld gerðu ekkert til að sporna gegn rússneskum tölvuárásum sem beindust gegn vestrænum ríkjum.
Fyrirtækið Group-IB, sem var stofnað árið 2003, sérhæfir sig í að finna og koma í veg fyrir árásir tölvuhakkara. Fyrirtækið starfar m.a. með alþjóðalögreglunni Interpol, sem og fleiri alþjóðlegum stofnunum.
Héraðsdómstóll í Moskvu hefur úrskurðað að hinn 35 ára gamli Ilya Sachov, sem forstjóri og einn af stofnendum fyrirtækisins, skuli sæta gæsluvarðhaldi í tvo mánuði vegna málsins. Ekki hafa verið gefnar upp frekari upplýsingar um ákæruatriðin.
AFP-fréttaveitan segir að mál sem varða ákærur um landráð séu vanalega lokuð. Verði menn fundnir sekir geta þeir átt yfir höfði sér 12-20 ára fangelsisdóm.
Talsmenn Group-IB sögðu í dag að yfirvöld hefðu framkvæmt húsleit á skrifstofum fyrirtækisins í morgun.
„Æðstu stjórnendur og lögfræðiteymi vinna nú að því að fá málið á hreint,“ segir í tilkynningu sem fyrirtækið hefur sent frá sér.
Þá hefur fyrirtækið ennfremur gefið út, að starfsmenn Group-IB trúi því að Sachov sé saklaus og hafi ástundað heiðarlega viðskiptahætti.
Tass-fréttastofan í Rússlandi hefur eftir heimildamanni innan raða rússnesku leyniþjónustunnar að Sachov hafi neitað að hann hafi starfað með erlendum leyniþjónustustofnunum.