Bretar búi sig undir útgöngu án samnings

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að breska þjóðin verði að undirbúa sig undir að ná ekki samningi við Evrópusambandið um útgöngu þeirra. Bretar gengu úr Evrópusambandinu fyrr á þessu ári en samkomulag náðist milli Breta og ESB um að gefinn yrði frestur til lok þessa árs til þess að ná saman um útgöngu Breta.

Johnson segir að nema komi til róttækra breytinga af hálfu ESB að þá muni ekki takast að koma á viðskiptasamningi fyrir árslok.

Sóttust eftir Kanada-samningi

Bæði Bretar og ESB hafa sagt að þau séu viljug til þess að ná saman en ESB hefur einnig gefið út að nú sé boltinn hjá Bretum. Johnson sagði á blaðamannafundi nýverið að fulltrúar ESB væru ekki fúsir til þess að íhuga alhliða viðskiptasamning við Breta sem byggir á núgildandi samningi sambandsins við Kanada.

Í staðinn telur Johnson líklegt að horft verði til annarra valkosta og nefndi hann samning ESB við Ástrali í því samhengi. Sá samningur er þó mun takmarkaðri en samningurinn við Kanada.

Líklegt að enginn samningur náist

Boris Johnsson segir í fréttatilkynningu sem birtist á vef BBC að miðað við núverandi ástand samningaviðræðna, þá verði breska þjóðin að undirbúa sig undir að ná ekki samningi við ESB í anda Kanada-samningsins. Í stað þess er líklegt að samband Breta við ESB verði í ætt við Ástralíu-samninginn, sem hann segir byggja á algjörum grunnreglum alþjóðaviðskipta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert