Sigur á undan fegurð

Erik ten Hag reynir sig við enska bikarinn í dag.
Erik ten Hag reynir sig við enska bikarinn í dag. AFP/Glyn Kirk

„Ég vann bara með honum í fimm mánuði en hann hafði eigi að síður djúpstæð áhrif á mig. Í mínum huga hugsar hann eins og erlendur þjálfari, að því leyti að úrslitin skipta mestu máli. Í Hollandi getur sú nálgun verið misjöfn, enda rík áhersla á fallegan fótbolta. Stundum virðist það skipta meira máli en að vinna. Ten Hag leggur líka mikið upp úr sóknarbolta en getur samt aðlagað taktík sína gerist þess þörf – á sinn hátt. Auðvitað er ekki sama hvernig liðið leikur en höfuðáherslan hjá honum er samt á að ná úrslitum.“

Þannig kemst hollenski knattspyrnumaðurinn Urby Emanuelsson að orði í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. Hér er rætt um Erik ten Hag, núverandi knattspyrnustjóra Manchester United, en Emanuelson lék undir hans stjórn hjá Utrecht í Hollandi árið 2017. Rétt áður en Ten Hag tók við Ajax. 

Urby Emanuelson í leik með AC Milan árið 2014.
Urby Emanuelson í leik með AC Milan árið 2014. AFP/Gabriel Bouys

Fundu til frelsis

Emanuelson segir andann í liðinu hafa verið mjög góðan og að menn hafi haft mikla trú á verkefninu. „Hann hafði komið á nýju og fersku kerfi. Leikmenn fundu til frelsis. Ég minnist þess ekki í annan tíma að hafa verið í liði, þar sem leikmönnum leið svo vel í kerfinu. Allir vissu upp á hár hvert þeirra hlutverk var. Við spiluðum 4-4-2 og vörðumst fyrir framan andstæðinginn en ekki aftan. Allt hverfðist um að loka glufum og svæðum. Það sætir svo sem engum tíðindum í dag en á þessum tíma var þetta framsækið. Ég hafði kynnst þessu lítillega áður en ekki í svona miklum mæli; Ten Hag færði menn stöðugt til á vellinum.“

Ryan Gravenberch, sem lék undir stjórn Ten Hags hjá Ajax en er nú hjá Bayern, staðfestir þetta með vandvirkni ten Hags. „Sýn hans er mjög skýr, hann veit hvað hann vill og útskýrir það alltaf af kostgæfni. Hann greinir alla leiki mjög vel með hliðsjón af styrkleikum síns liðs og veikleikum andstæðingsins.“ 

Lá aldrei á skoðunum sínum

Snemma beygðist krókurinn. Áður en hann gerðist atvinnumaður í knattspyrnu virtist Ten Hag vita sínu viti. Fred Rutten man eftir þessu en leiðir þeirra lágu fyrst saman hjá Twente, þegar sá síðarnefndi var að ljúka sínum leikferli. „Með okkur tókst vinátta. Ég var miðvörður en hann kornungur á miðjunni fyrir framan mig og maður sá strax að hann vissi hvernig spila á knattspyrnu.“

Fred Rutten er bráðabirgðastjóri PSV um þessar mundir.
Fred Rutten er bráðabirgðastjóri PSV um þessar mundir. AFP/Rob Engelaar

Síðar þjálfaði Rutten Ten Hag hjá Twente og unnu þeir hollenska bikarinn saman 2001. „Hann lá aldrei á skoðunum sínum, án þess að það væri óþægilegt fyrir mig sem þjálfara. Hann vissi hvað hann söng. Stundum þurfti ég þó að stíga á bremsuna enda höfðu aðrir leikmenn líka sitthvað til málanna að leggja.“

Ten Hag lagði skóna á hilluna vorið 2002, rétt orðinn 32 ára, en var áfram hjá Twente, sem yfirmaður unglingastarfs. ​

Ten Hag kom inn í þjálfarateymi Twente snemma árs 2006 og varð aðstoðarmaður Ruttens um sumarið. Rutten segir hann hafa unnið gott starf. „Hann var virkur kringum liðið og bjó að uppbyggilegri nálgun, ekki síst taktískt. Honum gekk líka vel að stjórna æfingum. Hann hafði sterkar skoðanir, grundvallaðar á skýrri sýn og ég hugsaði með mér: Hann verður fljótlega aðalþjálfari,“ segir Rutten. 

ítarlega nærmynd af Erik ten Hag er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Manchester United mætir Manchester City í úrslitaleik enska bikarsins í dag, laugardag, kl. 14.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert