Barcelona þarf að selja stjörnurnar

Antoine Griezmann er einn þeirra leikmanna sem Barcelona er tilbúið …
Antoine Griezmann er einn þeirra leikmanna sem Barcelona er tilbúið að selja. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona, eitt það frægasta og sigursælasta í heimi, er tilbúið að selja marga af sínum launahæstu og bestu leikmönnum vegna fjárhagserfiðleika.

Antoine Griezmann, Philippe Coutinho og Ousmane Dembélé eru á meðal þeirra leikmanna sem Börsungar eru tilbúnir að selja til að takast á við háan launakostnað félagsins. Það eru ekki nema tvö ár síðan Barcelona keypti Griezmann af Atlético Madríd fyrir um 100 milljónir evra en þá var hann fimmti dýrasti knattspyrnumaður allra tíma.

Félagið er hins vegar illa stætt eftir kórónuveirufaraldurinn og er stórstjarnan Lionel Messi meðal annars að taka á sig mikla launalækkun. Félagið hefur beðið aðra eldri leikmenn liðsins um að gera slíkt hið sama, meðal annars þá Gerard Pique, Sergio Busquets og Jordi Alba.

Það er spænska dagblaðið Sport sem er með samantekt um þessi mál og segir þar einnig að danski framherjinn Martin Braithwaite er einn þeirra sem félagið vill selja, enda hefur verðmæti hans aukist eftir góða frammistöðu á Evrópumeistaramótinu í sumar þar sem Danmörk fór alla leið í undanúrslit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert