„Vorum ekki nógu góðir í dag“

Ómar Ingi Magnússon með boltann í leiknum í dag.
Ómar Ingi Magnússon með boltann í leiknum í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ómar Ingi Magnússon, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handbolta, sagði liðið einfaldlega ekki hafa spilað nægilega vel í naumu 22:23-tapi fyrir Króatíu á EM 2022 í Búdapest í Ungverjalandi í dag.

„Jú, jú þetta var erfitt en við vorum bara ekki nógu góðir í dag. Við spiluðum ekki nægilega vel til þess að vinna, það var bara þannig,“ sagði Ómar Ingi í samtali við RÚV eftir leik.

Ísland náði mest fimm marka forystu og Króatía náði sömuleiðis svo mikilli forystu í síðari hálfleik. Íslendingar sneru taflinu við á ný og komust einu marki yfir, 22:21, áður en Króatía skoraði síðustu tvö mörkin í leiknum og tryggði sér sigur.

„Það var barátta að koma sér aftur í stöðu til þess að geta unnið leikinn. Við hefðum getað gert það en gekk ekki.

Við þurfum að gera betur til þess að vinna. Við vorum bara ekki nógu góðir þannig að það er bara næsti leikur,“ sagði Ómar Ingi einnig.

Ísland mætir Svartfjallalandi á miðvikudaginn kemur í lokaleik liðanna í milliriðli 1.

Með sigri í þeim leik og hagstæðum úrslitum úr leik Danmerkur og Frakklands tryggir Ísland sér sæti í undanúrslitum EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert