„Alltaf sárt að tapa leik í uppbótartíma“

Mackenzie átti frábæran leik fyrir FH.
Mackenzie átti frábæran leik fyrir FH. Ljósmynd/Kristinn Magnusson

Framherji FH, Mackenzie Marie George, var vonsvikin eftir leik liðsins gegn Breiðablik í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld. Breiðablik skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma og fór með sigur af hólmi, 3:2. Þrátt fyrir tapið var Mackenzie þó ánægð með liðið.

„Þetta er sárt, við héldum að við gætum náð stigi eða jafnvel sigri gegn toppliði Breiðabliks. Við vorum vongóðar í stöðunni 2:2 og það er alltaf sárt að tapa leik í uppbótartíma. Við gáfum allt sem við gátum í leikinn og að fá á sig mark í uppbótartíma er glatað.“

Vindurinn hafði mikil áhrif

Mikill vindur var á Kópavogsvelli og þá sérstaklega á annað markið. Í fyrri hálfleik leiksins sátu FH-ingar til baka og leyfðu Breiðablik að leika boltanum sín á milli en vörðust þó vel. Í seinni hálfleik sást þó loks til sólar hjá FH sem spilaði gjörbreyttan bolta en í þeim fyrri. Mackenzie sagði planið hafi alltaf verið að nota vindinn í uppstillingu fyrir leik.

„Við stilltum upp leikplani með vindinn í huga, ef við værum að spila gegn vindinum ætluðum við að sitja til baka og leyfa Breiðablik að vera með boltann og þvinga þær til þess að taka erfiðari leiðir en þær annars hefðu þurft að gera. Um leið og við vorum með vindinn í bakið sóttum við hart að Breiðablik og þetta virkaði næstum því!“

Hart barist

FH-ingar gáfu ekki mörg færi og þurftu Blikar oft að fara erfiðari leiðina í sóknarleik sínum. Mackenzie hrósaði liði sínu í hástert og sagði allar hafa sinnt hlutverki sínu vel.

„Við héldum góðri liðsheld og gáfum allt okkar í þetta, við vorum með leikplan og við stóðum við allt sem við sögðumst ætla að gera og gott betra. Við sýndum góðar hliðar á leik okkar og frábært að ná inn tveimur mörkum, við sáum í kvöld að við getum spilað gegn bestu liðunum, eins sárt og þetta tap er einmitt núna þá er hellingur af jákvæðum punktum sem við tökum með okkur inn í sumarið.“

FH situr eftir tapið í 10. og neðsta sæti deildarinnar eftir fimm umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert