Í samræmi við stefnu Rauða krossins

Kristín telur Rauða krossinn vera að sinna skyldum sínum, með …
Kristín telur Rauða krossinn vera að sinna skyldum sínum, með því að taka þátt í umsjá sóttvarnahúsa. Ljósmynd/Lögreglan

„Heildarsamtök Rauða krossins koma að því að hlúa að fólki sem hefur verið frelsissvipt, hvort sem það er í flóttamannabúðum, fangelsi eða annars staðar. Okkar verkefni er að gera dvölina bærilega,“ segir Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í samtali við mbl.is.

Rauði krossinn hefur umsjá með sóttvarnahúsum stjórnvalda en héraðsdómur komst að því í gær að ólögmætt var að skylda komufarþega frá hááhættusvæðum til þess að dvelja í sóttvarnahúsi.

Finnst ykkur ekki að það eigi að setja reglur um aðbúnað gesta í sóttvarnahúsunum, svo sem útivistartíma, sérstaklega í ljósi úrskurðarins þar sem dvölin var ekki talin samræmanleg heimasóttkví?

„Akkúrat í þessum töluðum orðum eru 100 manns í sýnatöku á sóttkvíarhótelinu þannig að það er ekki verið að breyta neinu verklagi akkúrat núna. Niðurstaðan í þessu er að fólk ræður hvort það sé á sóttkvíarhótelinu eða ekki. Það er flókið að setja útivistarreglur fyrir svona stórt hótel en eftir að seinni skimun hefur verið lokið munum við skoða framhaldið með sóttvarnayfirvöldum,“ segir hún. Flókið sé að hátta útivistartíma þar sem svo mikill fjöldi dvelur.

Þingmenn hafa velt því upp hvort það sé ekki brot á 3. gr. MSE, um bann við vanvirðandi meðferð, að leyfa fólki ekki að fara út undir bert loft. Nú er Rauði krossinn mannréttindasamtök, skýtur þetta ekki svolítið skökku við?

„Við segjum bara að það er enginn lokaður inni. Við stöndum ekki í vegi fyrir því að fólk fari út. Við reynum að finna bestu lausnina við því að fólki líði vel þessa fimm daga í sóttkví á hótelinu. En við erum ekki komin með lausnina að hleypa fólki í minni hópum í göngutúra.“

Vill hún að lokum taka skýrt fram að markmið Rauða krossins sé að tryggja heilsu og vellíðan gestanna.

„Við tökum ekki afstöðu til þess hvort fólk hafi verið sett í sóttkví eða af hverju, eða fangelsi. Við erum á hinum endanum; að tryggja að fólki líði vel. Rammann setja síðan stjórnvöld,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert