Víkingur R. - Fram, staðan er 4:1

Víkingurinn Karl Friðleifur Gunnarsson skýlir boltanum frá Framaranum Fred Saraiva …
Víkingurinn Karl Friðleifur Gunnarsson skýlir boltanum frá Framaranum Fred Saraiva á Víkingsvelli í kvöld. mbl.is/Kristinn Steinn Traustason

Íslandsmeistarar Víkings áttu ekki í miklum erfiðleikum með nýliða Fram, en þeir unnu þægilegan heimasigur, 4:1 á Frömurum í 5. umferð Bestu deildar karla í gær. 

Nokkuð jafnræði var í byrjun leiksins og áttu Framarar tvær álitlegar sóknir áður en Helgi Guðjónsson skoraði fyrsta mark Víkings. Heimamenn áttu heldur meira í leiknum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, en Erlingur Agnarsson skoraði annað mark Víkings á 21. mínútu eftir mistök í vörn Framara. 

Hann var svo aftur á ferðinni um fimm mínútum síðar, en þá átti Kristall Máni langa sendingu innfyrir vörn Framara beint á Erling, sem var þá einn á auðum sjó. Tók hann laglega gabbhreyfingu og renndi boltanum í opið markið. 

Víkingar hófu síðari hálfleikinn af krafti, en Framarar unnu sig vel inn í hann. Þeir uppskáru fyrir erfiði sitt á 61. mínútu þegar Hlynur Atli Magnússon, fyrirliði Framara, fékk boltann á góðum stað við hægra vítateigshornið. Hann tók Loga Tómasson á og skaut boltanum fast. Ingvar hafði hendur á boltanum en gat ekki komið í veg fyrir markið.

Næstu mínúturnar leit út fyrir að Framarar ætluðu að stríða Íslandsmeisturunum, en á 67. mínútu kom náðarhöggið þegar Birnir Snær Ingason gaf boltann fyrir mark Framara. Þar varð Delphin Tshiembe fyrir því óláni að reka fótinn í knöttinn og í eigið net.

Úrslitin voru þá ráðin. Þó að liðin skiptust á að sækja var eins og það vantaði örlítið upp á kraftinn hjá báðum liðum og 4:1 Víkingssigur staðreynd.

Víkingar eru eflaust mjög sáttir með stigin þrjú, þó að ekki hafi reynt mikið á þá við að landa þeim. Framarar munu hins vegar horfa til þess að þeir náðu ágætum spilköflum inn á milli, og að það vantaði ekki mikið upp á að staðan yrði 3:2 í stað 4:1. Ef og hefði gefur hins vegar fá stig og bæði lið vilja eflaust bæta sig fyrir næstu leiki, en þá mætir Víkingur toppliði Breiðabliks, og Framarar mæta Leiknismönnum. 

Víkingur R. 4:1 Fram opna loka
90. mín. Jesús Yendis (Fram) fær gult spjald +1 Jesús með harða tæklingu og uppsker sem hann sáir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert