Spilandi þjálfarar á EM

Kiril Lazarov hefur lengi verið einn besti handboltamaður heims.
Kiril Lazarov hefur lengi verið einn besti handboltamaður heims. AFP

Tveir af reyndustu handboltamönnum Norður-Makedóníu eru mættir til leiks á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu í óvenjulegu og tvöföldu hlutverki.

Hinn 41 árs gamli Kiril Lazarov hefur um árabil verið meðal bestu handboltamanna heims. Hann er tekinn við sem þjálfari norðurmakedónska landsliðsins en lætur ekki þar við sitja og spilar líka með því.

Sama er að segja um aðstoðarþjálfarann, Filip Mirkulovski. Hann er líka í leikmannahópnum eins og Lazarov og þekkir stöðuna vel því hann er spilandi aðstoðarþjálfari Wetzlar í Þýskalandi.

„Það eru kynslóðaskipti í liðinu hjá okkur og við komumst að þeirri niðurstöðu að það væri besta lausnin að ég tæki við liðinu. Það hefur gengið vel og við höfum undirbúið okkur vel undanfarna átta mánuði. Til viðbótar við Mirkulovski eru fleiri fyrrverandi landsliðsmenn sem hjálpa okkur," sagði Lazarov við heimasíðu mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert