ESA samþykkir losunarúthlutanir fyrir Ísland og Noreg

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti í dag útfærslur að árlegum losunarúthlutunum fyrir Ísland og Noreg fyrir tímabilið 2021 til 2030 í samræmi við reglugerð um sameiginlega ábyrgð. 

Fram kemur í tilkynningu frá EFTA að um sé að ræða mikilvægt skref til að tryggja að Ísland og Noregur nái markmiðum um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 í starfsemi sem viðskiptakerfi Evrópusambandsins fyrir losunarheimildir tekur ekki til. 

Reglugerðin um sameiginlega ábyrgð tilgreinir bindandi skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir Ísland, Noreg og aðildarríki ESB til 2030. Þetta nær til losunar í geirum sem eru fyrir utan viðskiptakerfið, þ.m.t. í samgöngum, byggingaframkvæmdum, landbúnaði, öðrum iðnaði og úrgangsstjórnun.

Ákvörðun ESA í dag kemur í kjölfar þess að löggjöfin hefur nú verið tekin upp í EES-samninginn, og yfirfærir markmið um samdrátt í losun til 2030 yfir í árlegar losunarúthlutanir fyrir árin 2021 til 2030. Árlegar losunarúthlutanir eru ákvarðaðar með tilliti til tonna koltvísýringsígilda fyrir hvert ár eftir línulegum ferli milli áranna 2021 og 2030.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert