Breti lagði bílastæði að velli

AFP

Draumar manna eru jafn fjölbreyttir og mennirnir sjálfir. Fáir deila þó draumi Bretans Gareth Wild en fyrir sex árum setti hann sér það markmið að leggja í öll bílastæði nálægrar stórverslunar. Þann 24. apríl síðastliðinn lauk hann ætlunarverkinu þegar hann lagði í stæðið sem hann hafði nefnt F20.

Gareth fékk innblásturinn fyrir verk sitt þegar hann tók eftir því að hann kaus að leggja í ákveðin stæði frekar en önnur við stórverslunina sem hann venjulega heimsótti. „Ég bý í Bromley og versla alltaf við sömu Sainsbury-verslunina nálægt miðbæ Bromley. Eftir að hafa verslað þarna í nokkur ár fór ég að velta fyrir mér hversu mörg mismunandi bílastæði ég hafði lagt í yfir árin og hversu lengi það tæki mig að leggja í þau öll,“ er haft eftir Gareth á Twitter-síðu hans.

Hugsar um að endurtaka leikinn

Sú reynsla hvatti hann til að telja bílastæðin við verslunina og komst hann að þeirri niðurstöðu að það væru 211 stæði við verslunina sem hann mætti leggja í. Ákvað hann þá að leggja í öll stæðin við Sainsbury-verslunina. Til þess að auðvelda verk hans flokkaði hann stæðin eftir fjarlægð frá inngangi búðarinnar og skráði í töflureiknisrit. Hófst þá ægilegt bílastæða-ævintýri Gareths þar sem hann samviskusamlega skráði niður stæðin sem hann hafði lagt í.

Niðurhólfun Gareths Wild á bílastæði Sainsbury í Bromley.
Niðurhólfun Gareths Wild á bílastæði Sainsbury í Bromley. Ljósmynd/Aðsend

Gareth áætlaði að verkið myndi taka einungis fjögur ár en Covid-19 setti strik í reikninginn. Spurður um hvort raunum hans væri lokið þá sagði Gareth að hann væri að velta vöngum yfir því að endurtaka leikinn við Lidl-verslun sem nýlega opnaði í götunni hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert