Vöntun á borðspili sem hentaði öllum, óháð aldri eða fyrri reynslu, varð kveikjan að Kjaftæði. Það eru þrír Akureyringar, Elís Orri Guðbjartsson, Sindri Már Hannesson og Skúli Bragi Geirdal, sem standa að baki útgáfu spilsins en drengirnir hafa þekkst síðan í grunnskóla. Fyrsta útgáfa spilsins var rissuð upp á servíettu snemma á síðasta ári en endanleg afurð er nýlega komin í verslanir.

„Snemma á síðasta ári ákváðum við að hittast vikulega og þurfti hver og einn að koma með þrjár viðskiptahugmyndir á hvern fund. Kjaftæði varð til á einum slíkum fundi, hugmyndin rissuð upp á servíettu og eftir það varð ekki aftur snúið,“ segir Elís Orri.

Kjaftæði er í grunninn afar einfalt spil. Leikmaður setur þar til gerðan góm í kjaftinn, dregur spil með setningu á og reynir að gera sig skiljanlegan fyrir liðsfélaga sínum. Munnstykkið gerir það verkefni vægast sagt erfitt, ómögulegt er nær lagi, og verður afraksturinn oft sprenghlægilegur.

„Okkur langaði að búa til borðspil sem hentaði öllum. Ekki bara þeim sem eru góðir í landafræði og sögu, stóðu sig vel í myndmennt í grunnskóla eða þeim sem öfluðu sér herkænsku með því að ljúga að foreldrum sínum um hvað raunverulega gerðist á lokaballinu í 10. bekk. Eina sem leikmenn þurfa að kunna er að lesa. Gómarnir láta einföldustu setningar hljóma eins og hrognamál, hvort sem maður er fluglæs eða skýrmæltur, og allt sem maður segir verður algert Kjaftæði,“ segir Sindri Már.

Ferlið sjálft tók rúmt ár en stærstur hluti þess fór í að troða góminum í munnvikin og semja setningar sem yrði hvað erfiðast að segja. Upphaflega voru þær rúmlega þrjú þúsund en aðeins færri komust í endanlegan kassa. „Það er óhætt að fullyrða að við gerð spilsins hafi verið hlegið, slefað og grátið – stundum allt í senn,“ segir Elís Orri.

Hafa ekki áhyggjur af smiti

Á tímum sóttvarna og grímuskyldu vaknar sú spurning hvort þremenningarnir hafi ekki áhyggjur af því að þessi gómarnir geti haft fráhrindandi áhrif á sölu. „Alls ekki. Þetta er svipað eins og að deila tannbursta, ef þú vilt endilega gera það þá gott og vel en allir myndu mæla gegn því. Víðir myndi sennilega kalla það einbeittan brotavilja,“ segir Skúli Bragi og Sindri bætir við að auðvelt sé að halda tveggja metra fjarlægð og setja grímu yfir munnstykkið. „Það fylgja átta gómar með og því þarf enginn að deila slíkum. Þá má síðan sjóða eða setja í uppþvottavél að spili loknu þannig að smithættan ætti að vera lítil. Í það minnsta minni en af völdum lokahófs meistaraflokks karla í knattspyrnu,“ segir Elís.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Rætt er við forstjóra Kauphallar Íslands sem óttast ekki fækkun skráðra félaga.
  • Finnur Oddsson, forstjóri Haga, fer yfir fyrstu mánuðina í nýju starfi og segir m.a. frá áherslubreytingum í rekstri félagsins.
  • Kathryn Gunnarsson stofnaði ráðninga- og mannauðsráðgjafarfyrirtæki um það leyti sem kórónuveirufaraldurinn var að taka sér bólfestu hér á landi.
  • Kristrún Frostadóttir tjáir sig um stýrivaxtalækkun gærdagsins og ummæli seðlabankastjóra á kynningarfundi hennar.
  • Byggingarfélag, sem ráðstafar hagnaði sínum til íþróttafélags, telst ekki undanþegið tekjuskatti að mati skattayfirvalda.
  • Herdís Fjeldsted, forstjóri Valitor, segir frá starfsferlinum og jógaáhuganum sem dró hana til Taílands.
  • Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur lagt háa sekt á vátryggingamiðlun. Félagið hyggst höfða mál til ógildingar á henni.
  • Óðinn fjallar um barnalán Ragnars Arnalds og fjölmiðlarýnir skoðar Landakot og raforkuverð.
  • Hinn einhenti Týr og Huginn og Muninn, hrafnar Óðins, eru að sjálfsögðu á sínum stað.