Eldar til góðs eftir erfiðan móðurmissi

Krabbameinsfélagið hefur reynst Eyþóri vel sem missti móður sína úr …
Krabbameinsfélagið hefur reynst Eyþóri vel sem missti móður sína úr ristilkrabbameini í nóvember. mbl.is/Hákon

Eyþór Gylfason er 23 ára matreiðslumaður sem hefur þurft að takast á við mikla sorg þrátt fyrir ungan aldur. Síðastliðið haust lést móðir Eyþórs, Sigurbjörg Essý Sverrisdóttir, úr ristilkrabbameini eftir hetjulega baráttu.

Eyþór, sem starfað hefur sem matreiðslumaður frá 16 ára aldri, hefur ákveðið að efna til sjö rétta kvöldverðar til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Kvöldverðurinn fer fram á Monkeys hinn 8. júní klukkan 18 og kostar 28.900 krónur á manninn. Með kvöldverðinum hyggst Eyþór heiðra minningu móður sinnar, hvetja til samstöðu í baráttunni gegn krabbameini og sýna fram á að hver og einn geti nýtt sína hæfileika til að láta gott af sér leiða.

Pítsustaðurinn Seilugrandi 6

Eyþór, sem er alinn upp í Vesturbænum, hefur lengi haft áhuga á matreiðslu en áhuginn vaknaði þegar hann var í Hagaskóla.

„Í Hagaskóla kviknaði hjá mér ástríða fyrir matreiðslu. Við mamma elduðum alltaf pítsu á föstudögum og grínuðumst oft með að við værum pítsustaðurinn Seilugrandi 6 og gerðum bestu pítsurnar í bænum.“

16 ára gamall fór Eyþór í matreiðslunám við Menntaskólann í Kópavogi en samhliða náminu hóf hann störf hjá veitingastaðnum Kol. Í dag vinnur hann á Monkeys en þar fer styrktarkvöldverðurinn fram.

Essý, móðir Eyþórs, lést hinn 19. nóvember síðastliðinn eftir 11 mánaða baráttu við illvígt ristilkrabbamein. Mæðginin áttu í nánu sambandi og minnist Eyþór sérstaklega þess hugrekkis og æðruleysis sem einkenndi krabbameinsbaráttu móður hans.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 25. maí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert