„Eiginlega það besta sem ég hef upplifað“

Kristján Örn Kristjánsson í þann mund að skora eitt af …
Kristján Örn Kristjánsson í þann mund að skora eitt af átta mörkum sínum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Örn Kristjánsson var hæstánægður með endurkomusigur Íslands gegn Brasilíu, 41:37, í lokaleik liðanna í milliriðli 2 á HM 2023 í Gautaborg í kvöld.

„Þetta er eiginlega það besta sem ég hef upplifað. Ég verð bara að segja það. Þegar maður verður eldri og eldri verður maður alltaf meira þakklátur.

Ég fékk að byrja inn á, ég held að þetta sé annað sinn sem ég byrja á stórmóti á mínum ferli, með unglinga- og A-landsliði. Þannig að ég var bara ótrúlega sáttur að hafa lokið mótinu svona,“ sagði Kristján Örn í samtali við mbl.is eftir leik.

Ísland var fjórum mörkum undir í hálfleik og fimm mörkum undir snemma í síðari hálfleik. Hvað gerði liðið til þess að snúa taflinu við?

„Það fyrsta sem vantaði var liðsandinn. Menn voru allt of þungir, var eitthvað slen yfir okkur. Þannig að í hálfleik sögðum við að nú væri nóg komið og núna snúum við þessu við, við ætlum ekki að gefa svona skítaframmistöðu fyrir framan allt þetta fallega fólk,“ útskýrði hann.

Spennustigið aðeins of hátt í byrjun

Kristján Örn var næstmarkahæstur hjá Íslandi með átta mörk og fékk auk þess tvær tveggja mínútna brottvísanir.

„Ég myndi segja að spennustigið hafi verið aðeins of hátt hjá mér í byrjun. Þegar ég fékk að vita að ég myndi byrja var ég aðeins byrjaður að ofhugsa hlutina. Svo byrjaði leikurinn og við vorum líka eftir á í vörninni í fyrri hálfleik.

Það var það sem gerði mig svolítið óöruggan í vörninni, hvar ég ætti að staðsetja mig. Svo í seinni hálfleik þá lét ég þetta rúlla miklu betur, leyfði boltanum að spilast og tók mín færi,“ sagði hann.

Kristján Örn býr sig undir að þruma að marki Brasilíu …
Kristján Örn býr sig undir að þruma að marki Brasilíu í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvort Kristjáni Erni þætti erfiðara að spila fyrir landsliðið en félagslið sitt Aix í Frakklandi sagði hann:

„Ég finn aldrei fiðring nema þegar ég spila fyrir landsliðið, það er staðan hjá mér.“

Bjarki Már Elísson var markahæstur í leiknum með því að skora níunda mark sitt í blálokin. Kristján Örn kvaðst ánægður fyrir hans hönd.

„Ég er mjög ánægður. Ég skilaði mínu og hinir leikmennirnir skiluðu sínu líka, svo sannarlega,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert