Getum ekki beðið um mikið meira

Albert Guðmundsson skorar fyrra mark sitt.
Albert Guðmundsson skorar fyrra mark sitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Albert Guðmundsson skoraði tvö mörk er Ísland vann öruggan 4:0-heimasigur á Liechtenstein í undankeppni HM í fótbolta í kvöld.

„Við getum ekki beðið um mikið meira. Það var góður stuðningur, fjögur mörk og við héldum hreinu. Við förum mjög sáttir á koddann í kvöld,“ sagði Albert í samtali við RÚV eftir leik.

Mörkin voru kærkomin fyrir Albert, enda langt síðan hann skoraði með landsliðinu. „Þetta var kærkomið. Allir sóknarsinnaðir leikmenn lifa á mörkum og það var gott fyrir mig að skora.“

Albert segir liðið vera á leiðinni í rétta átt, en sigurinn var númer tvö í röðinni í undankeppninni til þessa, en sá fyrri kom einnig gegn Liechtenstein.

„Mér finnst við allir vera að róa í sömu átt. Það er bara jákvætt að spila á mörgum leikmönnum og gott fyrir alla að prófa að spila með hvorum öðrum og læra betur á hvern annan,“ sagði Albert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert