Fótbolti

KSÍ bíður nákvæmari upplýsinga en stutt í stóru ákvörðunina

Sindri Sverrisson skrifar
Guðni Bergsson og hans fólk í höfuðstöðvum KSÍ hefur haft í nógu að snúast síðustu daga og vikur.
Guðni Bergsson og hans fólk í höfuðstöðvum KSÍ hefur haft í nógu að snúast síðustu daga og vikur. vísir/vilhelm

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að fundað verði í dag og um helgina um framtíð Íslandsmótsins í fótbolta. Lið á höfuðborgarsvæðinu mega ekki æfa það sem eftir er október.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi heilbrigðisráðherra, staðfesti við Vísi í dag að íþróttir með snertingu yrðu áfram bannaðar á höfuðborgarsvæðinu, þegar nýjar reglur taki gildi. Ráðgert er að þær taki gildi næsta þriðjudag og gildi í tvær eða þrjár vikur.

„Þetta kemur svo sem ekki á óvart miðað við fréttirnar síðustu daga. Þetta er eitthvað sem að við í knattspyrnuhreyfingunni þurfum að takast á við. Að vísu kemur reglugerðin ekki út formlega fyrr en á morgun og við viljum bíða með ákvarðanir þar til að hún birtist í heild sinni,“ segir Guðni og bendir á að það geti til að mynda skipt máli hvort reglurnar gildi til tveggja eða þriggja vikna.

Enn á eftir að ljúka örfáum umferðum í flestum deildum Íslandsmótsins, sem og Mjólkurbikarnum. Í reglugerð KSÍ frá því í júlí segir að ekki verði spilað fram yfir 1. desember. Guðni vildi ekki tjá sig um hvort hugsanlegt væri að hnikað yrði frá fyrri ákvörðun um 1. desember.

Formaðurinn vildi raunar ekkert sýna á spilin varðandi það hvort mótið yrði blásið af eða þess áfram freistað að ljúka síðustu leikjunum:

„Það er ekki tímabært fyrir mig að tjá mig um þetta núna. Við munum funda síðar í dag og um helgina, en tilkynnum um framvinduna eins fljótt og auðið er. Fyrsta skrefið er að fá þessar reglur formlega frá ráðuneytinu á morgun,“ segir Guðni, sem vonast til að ákvörðun liggi fyrir í síðasta lagi á mánudag:

„Þetta er stór ákvörðun og við viljum vanda okkur. Við höfum verið mikið í samtölum við aðildarfélög okkar og Íslenskan toppfótbolta, en á endanum þarf að taka ákvörðun og við gerum það mjög fljótlega.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×