Barcelona gefur eftir - Suárez til Atlético Madríd

Luis Suárez.
Luis Suárez. AFP

Barcelona hefur ákveðið að leyfa Luis Suárez að fara til Atlético Madríd en áður hafði félagið lagst gegn því. 

Legið hefur fyrir undanfarið að Barcelona vilji losna við leikmanninn sem þénaði 30 milljónir evra á ári hjá félaginu. Suárez hafði áhuga á því að fara til Juventus en það gekk ekki upp því félagið fékk ekki atvinnuleyfi fyrir Suárez sem er frá Úrúgvæ. Hjá Juve eru þegar tveir leikmenn sem ekki eru með evrópskt vegabréf og þar með er kvótinn fullnýttur. 

Suárez samdi við Atlético Madríd um að fá 15 milljónir evra á ári eða helmingi minna en hann fékk hjá Barcelona. 

Forráðamenn Barcelona ætluðu hins vegar að meina honum að fara til Atlético þar sem þeim hugnaðist ekki sérstaklega að sjá á eftir leikmanninum til liðs í toppbaráttunni á Spáni. 

Eftir fundahöld með Suárez og umboðsmanni hans hafa forráðamenn Barcelona hins vegar gefið eftir. BBC telur að á fundinum hafi Suárez hótað því að fara í fjölmiðla með ýmislegt sem hann er óánægður með hjá Barcelona ef hann fengi ekki sínu framgengt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert