Handbolti

Magdeburg og Bergischer höfðu betur í Íslendingaslögum dagsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi fagnar marki fyrr á leiktíðinni en hann lék á alls oddi í dag.
Ómar Ingi fagnar marki fyrr á leiktíðinni en hann lék á alls oddi í dag. Uwe Anspach/Getty

Fjórir leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag og tveir af þeim voru Íslendingaslagir. Magdeburg með Ómar Inga Magnússon og Gísla Þorgeir Kristjánsson innanborðs vann öruggan sigur gegn Daníel Þór Ingasyni og HBW Balingen-Weilstetten 28-17. Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir Bergischer sem vann með minnsta mun gegn Andra Má Rúnarssyni og félögum hans í Stuttgart, 26-25.

Magdeburg tók forystuna strax á fyrstu mínútu og hleypti Balingen aldrei nálægt sér eftir það. Þegar að flautað var til hálfleiks var munurinn sex mörk, 14-8.

Magdeburg hélt áfram að þjarma að Daníel Þór og félögum í seinni hálfleik og náðu mest tólf marka forskoti. Að lokum unnu þeir öruggan ellefu marka sigur, 28-17. Ómar Ingi skoraði fjögur mörk fyrir Magdeburg og Gísli Þorgeir eitt. Daníel Þór gerði eitt mark fyrir Balingen sem hefur aðeins unnið einn af fyrstu fjórum leikjum sínum.

Magdeburg hefur hins vegar byrjað tímabilið mun betur og er með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.

Leikur Bergischer og Stuttgart bauð upp á mun meiri spennu en viðuregin Magdeburg og Balingen. Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og staðan var 12-10 þegar að gengið var til búningsherbergja.

Arnór Þór og félagar náðu mest fjögurra marka forskoti um miðjan seinni hálfleik, en Stuttgart minnkaði muninn aftur niður í eitt mark þegar að lítið var eftir. Þeir náðu þó ekki að jafna metin og Arnór Þór og félagar unnu því með minnsta mun, 26-25, og hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum.

Stuttgart hefur leikið einum leik minna, en er enn í leit að sínum fyrstu stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×