Sigurður nýr lögfræðingur hjá Öryrkjabandalaginu

Sigurður Árnason er nýr lögfræðingur hjá ÖBÍ.
Sigurður Árnason er nýr lögfræðingur hjá ÖBÍ. Ljósmynd/ÖBÍ

Sigurður Árnason hefur verið ráðinn í starf lögfræðings hjá ÖBÍ réttindasamtökum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá réttindasamtökunum.

í tilkynningunni segir að Sigurður mun hafa yfirumsjón með ráðgjöf og réttindagæslu við fatlað fólk af erlendum uppruna, þ.m.t. flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Einnig mun Sigurður sinna lögfræðilegri ráðgjöf við forystu ÖBÍ auk almennrar ráðgjafar við einstaklinga og réttindagæslu fatlaðs fólks.

Áralöng reynsla á sviðum alþjóðlegrar verndar

„Sigurður hefur ML-gráðu í lögfræði auk þess að hafa hlotið lögmannsréttindi. Sigurður hefur áralanga reynslu af störfum á sviðum alþjóðlegrar verndar og útlendingamála.“

Þá kemur fram að hann hafi til langs tíma sinnt skipunum sem talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd sem lögfræðingur hjá Rauða krossinum á Íslandi og sem sjálfstætt starfandi lögmaður. Einnig hefur Sigurður tekið þátt í ýmsu málefnastarfi á fyrrnefndum sviðum á innlendum og erlendum vettvangi.

„Hjá ÖBÍ vinnur gott fólk að samfélagslega mikilvægum málum og ég lít á það sem forréttindi að fá að starfa í þessu umhverfi,“ segir Sigurður í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert