Taíland viðurkennir rafíþróttir sem íþrótt

Útsýni yfir Bangkok, höfuðborg Tælands.
Útsýni yfir Bangkok, höfuðborg Tælands. Ljósmynd/Jakob Owens

Rafíþróttir í Taílandi hafa nú verið viðurkenndar sem atvinnuíþrótt þar í landi. Sú viðurkenning er fagnaðarefni rafíþróttamanna þar í landi, sem og rafíþróttamanna um allan heim. 

Sífellt bætast fleiri lönd í hóp þeirra landa sem viðurkenna rafíþróttir, bæði sem almenna íþrótt eða atvinnuíþrótt, og gera rafíþróttamönnum kleift að njóta sama ávinnings og aðrir íþróttamenn.

Vinsældir jókust og íþróttasambandið viðurkenndi

Var það í byrjun vikunnar sem tilkynning barst af því að Taílenska Íþróttasambandið (e. Sports Authority of Thailand) hafi viðurkennt rafíþróttir sem atvinnuíþrótt þar í landi. Í kjölfar atburða njóta nú rafíþróttamenn og aðrir einstaklingar sem tengjast rafíþróttum stuðnings frá Taílenska Íþróttasambandinu. 

Vinsældir rafíþrótta í Taílandi hafa aukist mikið síðustu ár. Það að rafíþróttir eru nú viðurkenndar sem atvinnuíþrótt í landinu gefur rafíþróttamönnum þar aukin tækifæri. Viðurkenningin veitir rafíþróttamönnum í Taílandi einnig greiðari leið að því að fá meira borgað fyrir vinnu sína.

Hvað þarf til að rafíþróttir verði viðurkenndar á Íslandi?

Ljóst er að viðurkenning sem þessi er þýðingamikil fyrir rafíþróttasamfélög víða um heiminn, en í mörgum löndum eru samfélög sem berjast fyrir slíkri viðurkenningu sem gefa rafíþróttamönnum aukinn stuðning. 

Hvenær verða rafíþróttir viðurkenndar sem íþrótt af ÍSÍ hér á landi? Nú þegar heimsmeistaramótið í League of Legends nálgast bætist í hóp þeirra sem átta sig hversu umsvifamiklar rafíþróttir eru í heiminum. Hjálpa slíkir stórviðburðir rafíþróttamönnum í baráttu sinni um viðurkenningu íþróttarinnar?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert