Reiknar með því að nýjar takmarkanir dugi

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, kveðst ánægður með nýj­ar tak­mark­an­ir á landa­mær­un­um. „Ég held að það hafi verið skynsamlegt að gera þetta svona og ég reikna með því að það dugi,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

Afléttingarnar þörf tilraun

Hann segir afléttingar sumarsins hafa verið þarfa tilraun. „Það varð að prófa hvort við gátum lifað í frjálsum samskiptum við umheiminn, við vorum fyrsta landið í Evrópu til að reyna slíkt. Ríkisstjórnin hefur farið að tillögum sóttvarnalæknis allan þennan tíma og úr varð að við gátum opnað á undan öllum öðrum Evrópulöndum.“

Kári telur þess vegna enga ástæðu til að vefengja mat Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis: „Nú þegar Þórólfur leggur til að við krefjumst neikvæðs veiruprófs frá fólki sem kemur inn í landið verða menn að horfa til þess sem reynslan segir okkur. Það sem hann leggur til er ekki bara þjóðinni allri til bóta heldur líka allri ferðaþjónustunni.“

Segir gagnrýni ekki halda vatni

Nokkrir ráðherrar og forsvarsmenn ferðaþjónustunnar veltu því upp í dag hvort frekari takmarkanir á landamærum væru tilefnislausar. Kári gefur lítið fyrir þær röksemdir: „Það sem þau verða að gera sér grein fyrir er að fimmtungur þjóðarinnar er enn óbólusettur. Ferðamenn sem koma hingað inn geta borið veiruna með sér og smitað þá sem eru ekki enn bólusettir,“ segir Kári. 

Hann segir þá staðreynd að bólusettir þurfi síður á sjúkrahúsinnlögn að halda ekki endilega eiga að vera grundvallaratriði í sóttvarnarstefnu stjórnvalda: „Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að lasleiki er líka lasleiki þótt maður sé ekki lagður inn á spítala. Við eigum að stíga létt til jarðar í sambandi við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert