„Þetta er yfirgangur og ofsóknir”

Prýði­fé­lagið Skjöld­ur afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra ályktun um að …
Prýði­fé­lagið Skjöld­ur afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra ályktun um að skjaldborg verði slegið um Skerjafjörð. Kjartan Gunnar er lengst til hægri.

Baráttuhugur er í íbúum Skerjafjarðar sem mótmæltu í vikunni nýju íbúðahverfi á fjölmennum íbúafundi sem Prýðifélagið Skjöldur stóð fyrir.

Kjartan Gunnar Kjartansson, fyrrverandi blaðamaður og íbúi í Skerfjafirði, segir að undirbúningur framkvæmda sé að hefjast en íbúarnir ætli að berjast gegn þeim af öllu afli. Nýja hverfið á að rísa austur af Skerjafirði í miklu návígi við Reykjavíkurflugvöll.

„Borgaryfirvöld sem nú eru við stjórn telja sig vera að slá tvær flugur í einu höggi með nýrri byggð í Skerjafirði. Þau ætla sér að leggja af Reykjavíkurflugvöll áður en annar flugvöllur verður tilbúinn.”

Ávísun á umferðaröngþveiti

Kjartan bendir á að áform um uppbyggingu stofn- og tengibrautakerfis Reykjavíkur hafi legið á ís árum saman. Með því að sexfalda byggðina í Skerjafirði fjölgar íbúum úr 700 í 4.200 og fjöldi ökutækja í hverfinu fer úr 2.800 í 16.800. Kjartani líst ekki á blikuna, ekki síst í ljósi þess að verið er að byggja nýjan Landspítala.

„Þegar hann tekur til starfa verður allt starfsfólk Landspítalans í Fossvogi komið upp á Hringbraut. Skerjafjörðurinn er stærsti botnlanginn á landinu,” segir Kjartan. Núverandi umferðaræðar sem liggi að Skerjafirði, Suðurgata og Njarðargata, séu nú þegar algjörlega sprungnar á annatímum. „Það verður algjört umferðaröngþveiti í Vesturbænum og á Hringbrautinni allri austur að Snorrabraut. Það er ekkert hugsað um umferðarmálin. Þetta er yfirgangur og ofsóknir.”

Áhyggjur af mengun

Íbúar hafa jafnframt miklar áhyggjur af menguðum jarðvegi sem verði fluttur um Skerjafjörð þegar jarðvegsvinna hefst á byggingarsvæðinu. „Þetta er mengaðasti jarðvegur í Reykjavík,” segir Kjartan en Shell var með olíutanka á svæðinu með flugvélabensíni og steinolíu frá 1927-1997.

Það er mat Prýðifélagsins Skjaldar að um 13.000 vörubílsfarmar komi til með að fara í gegnum hverfið með mengaða jarðveginn á framkvæmdatímanum sem geti valdið heilsu íbúa tjóni. „Það er enginn móttökustaður á Íslandi sem getur tekið við svona menguðum jarðvegi,” segir Kjartan og spyr hvar menn ætli að losa sig við hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert