Viljum ná að fara upp í miðja deild

Aldís María Jóhannsdóttir og Helena Jónsdóttir úr ÍBV í baráttu …
Aldís María Jóhannsdóttir og Helena Jónsdóttir úr ÍBV í baráttu um boltann á Hásteinsvelli. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Aldís María Jóhannsdóttir spilaði á vinstri kanti í liði Tindastóls þegar liðið fór að etja kappi við lið ÍBV á Hásteinsvelli í 12. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta í dag.

Lokatölur í leiknum voru 2:1 fyrir ÍBV eftir að Tindastóll komst 1:0 yfir með marki Aldísar á 21. mínútu. Þetta var hennar fyrsta mark í sumar.

„Mjög svekkjandi tap í dag. Við börðumst ekki nægilega mikið og misstum baráttuna niður um leið og við fengum jöfnunarmarkið á okkur. Ég veit ekki hvað gerðist, mér fannst við byrja leikinn ágætlega en eins og ég sagði þá duttum við niður eftir markið,“ sagði Aldís um lokatölur leiksins.

Leikurinn var nokkuð jafn svona á heildina litið. ÍBV þó með fleiri marktækifæri og náði að skapa meira.

„Ekki mikill munur á liðunum hér í dag og við frekar óheppnar að klára ekki færin og klára ekki varnarleikinn almennilega,“ sagði Aldís svekkt.

Aðstæður á vellinum voru krefjandi, mikil rigning á tímabili og völlurinn mjög blautur. Spurð hvort hún teldi að aðstæður hefðu eitthvað spilað inní svaraði Aldís: „Gæti alveg verið, boltinn skaust áfram og völlurinn var mjög blautur og sleipur. Við erum yfirleitt á gervigrasi þannig að við vorum kannski ekki eins vanar og þær.“

Eftir tapið er Tindastóll áfram í 8. sæti með ellefu stig, tveimur stigum frá Keflavík og Fylki sem sitja í fallsætunum með níu stig.

„Markmiðið hjá okkur í liðinu var að halda okkur uppi í deild þeirra bestu, svo ætluðum við að ná ákveðnum stigafjölda. Núna viljum við ná að fara upp í miðja deild.“

Næsti leikur Tindastóls er 6. ágúst á móti Breiðabliki á heimavelli. Breiðablik situr í 2. sæti með 27 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert