10% fjölskyldna á Íslandi eiga 44%

Eiginfjárstaða, eða eigið fé fjölskyldna, heldur áfram að styrkjast og var eigið fé samtals um 5.176 milljarðar króna árið 2019 sem er aukning um 9,1% á milli ára. Þó er það minni hækkun en síðustu ár að undanskildu árinu 2013. Eignir aukast meira en skuldir eða um 8,6% á meðan skuldir aukast um 7,3%.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. 

Heildareignir jukust um 8,6% á milli áranna 2018 og 2019 eða úr 6.855 milljörðum króna í 7.442 milljarða króna. Eignir teljast sem allar eignir fjölskyldu, þar með talið fasteignir, ökutæki, innistæður í bönkum og verðbréf. Verðmæti fasteigna miðast við fasteignamat og hlutabréf eru á nafnvirði að sögn Hagstofunnar. 

10% eiga 3.200 milljarða

„Árið 2019 var hlutur fasteigna af heildareignum fjölskyldu um 75,9%, ökutækja 4,3%, bankainnistæðna 11,1% og verðbréfa 7,5% og voru litlar breytingar frá fyrra ári. Eignir fjölskyldna í hæstu tíund eigna námu 3.267 milljörðum króna eða um 43,9% af heildareignum sem er nánast sama hlutfall og árið 2018 (44,6%).

Heildarskuldir töldu 2.266 milljarða króna í árslok 2019 sem er aukning um 7,3% frá fyrra ári. Skuldir eru skilgreindar sem allar skuldir eða heildarskuldir fjölskyldu og falla þar undir fasteignaskuldir, ökutækjalán, námslán, yfirdráttarlán og kreditkortalán. Skuldir hjóna með börn jukust um 7,9% og einstæðra foreldra um 7,6%. Skuldir hjóna án barna jukust um 6,3% og skuldir einstaklinga um 7,4%. Samanlagðar skuldir fjölskyldna í hæstu skuldatíund námu 882 milljörðum króna eða um 38,9% heildarskulda,“ segir á vef Hagstofunnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert