Börnin eigi ekki að þurfa að bíða

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að börn sem glími við bráðavanda eigi ekki að þurfa að bíða. Það sé skilningur allra í kerfinu. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi þar sem rætt var um geðheilbrigðismál. 

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, benti ráðherra á að þrátt fyrir öll svör og allt sem búið væri að gera þá væri fólk enn að falla á milli skips og bryggju. 

Göt í kerfinu

„Það eru göt í kerfinu, börn fá enga hjálp og búa hjá foreldrum með geðræn vandamál. Börn eru enn á biðlistum. Og það sem er kannski skelfilegast er að fólk kvartar undan því að einstaklingar með alvarleg geðræn vandamál nái ekki strax í gegnum síma inn á bráðamóttöku, fái ekki hjálpina, og að hvergi sé tekið á því að ekki sé nein hætta á því að ef einhver þarf á bráðaþjónustu að halda sé honum bara vísað á heimilislækni til að fá tilvísun. Það gengur ekki upp. Það getur ekki á nokkurn hátt gengið upp að vísa fólki frá og segja því að fara til heimilislæknis. Heilsugæslan er ekki opin allan sólarhringinn,“ sagði Guðmundur í sinni ræðu. 

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Verklagið er með þeim hætti að ef það er bráðavandi á barnið ekki að þurfa að bíða. Það er skilningur allra í kerfinu. Það eru þau skilaboð sem ég fæ frá framlínustarfsfólki að það sé hugsunin,“ sagði Svandís og hélt áfram: „Og ég veit að ef það er einhvers staðar meðvitund um mikilvægi þess að forgangsraða börnum í bráðum vanda þá er það hjá því fólki sem veitir þessa þjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert