„Mér fannst við geta unnið leikinn“

Ásdís Karen Halldórsdóttir í leiknum í dag.
Ásdís Karen Halldórsdóttir í leiknum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var svekktur yfir niðurstöðunni en ánægður með frammistöðu liðsins í leiknum gegn Glasgow City í 2. umferð Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í dag. 

Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit eftir að staðan var 1:1 að loknum venjulegum leiktíma. Ekki var skorað í framlengingunni en í vítakeppninni skoraði Glasgow úr fjórum spyrnum en Valur úr þremur eftir sex umferðir. 

„Það er að sjálfsögðu svekkjandi að tapa við þessar aðstæður. Sérstaklega þar sem mér fannst að við geta unnið leikinn,“ sagði Pétur þegar mbl.is ræddi við hann. „Við vissum að við yrðum að verjast vel til að eiga möguleika. Það tók tíma að vinna sig inn í leikinn og sækja. Það gekk betur þegar leið á leikinn og mér fannst við vera betri þegar leið á og í framlengingunni. Ég er því ánægður með frammistöðuna.“

Pétur sagði ákvarðanir slóvenska dómarans hafa haft mikil áhrif á úrslitin. 

„Ég er mjög óánægður með að hún skuli dæma aukaspyrnu á okkur þegar leikmaður okkar spilaði löglega vörn. Upp úr aukaspyrnunni skorar Glasgow. En svo sleppir hún því að dæma víti þegar Hlín er felld í teignum þegar þrjár mínútur eru eftir af framlengingunni. Ef UEFA vill að Meistaradeildinni sé sýnd virðing þá verður það að setja alvöru dómara á þessa leiki.“

Langt er síðan leikið var síðast á Íslandsmótinu og í millitíðinni lék Valur gegn HJK í 1. umferð keppninnar þar sem undirbúningurinn var lítill sem enginn. 

„Síðasti leikur hjá okkur var 4. nóvember en síðasti leikurinn í Íslandsmótinu var í byrjun október. Miðað við það þá stóð liðið sig mjög vel. En við gátum undirbúið okkur betur fyrir þennan leik heldur en leikinn í 1. umferð. Nú fengum við leyfi til að æfa og fengum tíu daga til að undirbúa okkur en höfðum ekki nema tvo daga fyrir leikinn gegn HJK. Við getum þakkað fyrir það.“

Pétur Pétursson.
Pétur Pétursson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert