Þróttur R. með nauman sigur

Þróttur vann nauman 2:1 sigur
Þróttur vann nauman 2:1 sigur Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti Þrótti Reykjavík í vindasömum leik á Hásteinsvelli í 4.umferð í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í dag. Lokatölur voru 1:2 fyrir Þrótturum.  

Fyrir leikinn voru bæði lið með fjögur stig í 6. og 7. sæti. 

ÍBV byrjuðu með boltann og voru með vindinn í bakið. Vindurinn spilaði stórt hlutverk í leiknum hér í kvöld og áttu Þróttur Reykjavík í töluverðum erfiðleikum að koma boltanum yfir miðjulínuna og á vallarhelming andstæðingsins í fyrri hálfleik. Það voru ekki liðnar nema tvær mínútur þegar að Ameera Hussen, miðjumaður ÍBV, átti hörkuskot í stöngina. Á næstu mínútum lágu Eyjakonur þungt á vörn Þróttara og áttu þær töluvert af marktækifærum en Íris Dögg í marki Þróttara gerði vel og sá til þess að halda sínum konum inni í leiknum. Þrátt fyrir að liggja í sókn tók það Eyjakonur 31 mínútu að koma boltanum í netið. Þá kom Kristín Erna með flotta sendingu inn af kantinum á Ameera Hussen sem hamraði honum í netið. Staðan orðin 1:0 fyrir ÍBV. 

Seinni hálfleikur fór svipað af stað og sá fyrri og var boltinn meira á vallarhelmingi ÍBV. Þróttarar áttu margar fínar sóknir og eins og í fyrri hálfleik var það markmaður liðsins á móti vindi sem var í lykilhlutverki. Eftir að hafa nokkrum sinnum varið boltann vel kom að því að Murphy Agnew náði að leggja boltann framhjá Guðnýju Geirsdóttur í markinu. Katla Tryggvadóttir kom sér þá í gott færi en skaut í stöngina, boltinn fór hinsvegar aftur út í teiginn þar sem Murphy Agnew var vel staðsett. Staðan orðin 1:1. 

Það var svo fimm mínútum seinna sem að Sæunn Björnsdóttir fékk boltann í fætur langt fyrir utan teig Eyjakvenna, kom sér í góða skotstöðu og lét vaða. Glæsilega gert hjá Sæunni og staðan orðin 1:2 fyrir Þrótti Reykjavík og urðu það lokatölur hér á Hásteinsvelli í kvöld. Eyjakonur líklega svekktar að hafa ekki nýtt fleiri færi í fyrri hálfleik. 

 

Fyrir áhugamann um kvennafótboltann á Íslandi er virkilega gaman að sjá hvernig deildin fer af stað þetta sumarið. Öll lið eru að tapa stigum og ekkert er gefið eða fyrirfram skrifað í skýjin. Ekkert lið er með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar og nokkur óvænt úrslit hafa litið dagsins ljós, vonandi er þetta það sem koma skal í sumar. 

Einnig vermir það að sjá uppbyggingu liðanna en í mörgum hverjum liðunum má sjá ungar og efnilegar knattspyrnukonur og eldri reynslumikla leikmenn spila saman og er útkoman frábær fyrir íslenska kvennaknattspyrnu. Undirritaðri finnst þessi blanda sérstaklega vel heppnuð í ár og eiga þjálfarar hrós skilið fyrir það. 

Þróttur R. fær Þór/KA í heimsókn í næstu umferð Bestu deildar kvenna þann 18.maí næstkomandi. ÍBV fer hinsvegar á Kópavogsvöllinn og mætir þar Breiðabliki sama dag. 

 

ÍBV 1:2 Þróttur R. opna loka
90. mín. Þróttur R. fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert