Fengum augnablik til að koma okkur inn í leikinn

Jónatan Magnússon, þjálfari KA.
Jónatan Magnússon, þjálfari KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var svekktur með tap sinna manna er liðið mætti til Vestmannaeyja og spilaði gegn ÍBV í 3. umferð Olísdeildar karla. Liðin voru bæði með fjögur stig úr fyrstu tveimur leikjum sínum en lokatölur 35:31.

„Heilt yfir náðum við ekki að spila nógu góðan varnarleik eða fá nógu góða markvörslu til að vinna leikinn. Þrátt fyrir að það vantaði í rauninni allan leikinn þá fengum við augnablik í seinni hálfleik til að koma okkur inn í þetta. Við erum þá sjálfum okkur verstir hvað það varðar, við förum með víti og hraðaupphlaup. Mér fannst það vera stóru augnablikin,“ sagði Jónatan en markvarsla liðsins var lítil sem engin en að sama skapi sóknarleikurinn mjög góður.

„Okkur vantaði að ná upp heilsteyptari varnarleik og markvörslu til að vinna þetta, í fyrstu tveimur leikjunum höfum við fengið mjög góða markvörslu og verið þéttir. Þetta helst í hendur og þá var varnarleikurinn í fyrri hálfleik ekki góður, sem gerði það að verkum að þeir fengu erfið skot á sig. Í seinni hálfleik var vörnin þéttari og þar vildum við fleiri vörslur. Það er eins og það er, við erum lið og þó að það hafi ekki verið markvarsla þá fáum við móment sóknarlega til að koma okkur nær en við klikkum. Við hefðum þurft heilt yfir betri frammistöðu til að vinna ÍBV hér á þeirra heimavelli.“

Gestirnir hófu leikinn betur og leiddu 3:5 snemma leiks, stuttu eftir það missa þeir tökin á leiknum og Eyjamenn létu forystuna aldrei af hendi.

„Mér fannst við byrja leikinn vel og vera með yfirhöndina. Leikplanið okkar hélt til að byrja með en það þurfti ekki nema eitt vítaklikk og þá fengum við brottvísun og þetta snýst. Ég þarf að skoða brottvísunina betur og annað hvort var hún ódýr eða klaufaleg en það gekk ekki vel hjá okkur í undirtölunni. ÍBV er með hörkulið en við líka og ég er svekktur með að hafa ekki fengið þetta til að halda lengur, þar sem við byrjuðum vel. Við byrjuðum seinni hálfleikinn líka vel og það er svekkjandi að ná ekki að halda út.“

Það hafa verið miklar breytingar gerðar á KA-liðinu á milli ára en margir sterkir leikmenn hafa yfirgefið liðið og aðrir sterkir leikmenn komið inn. Það hlýtur að vera mikið pússluspil að fá liðið til þess að virka vel.

„Þetta skiptist á milli leikja hjá okkur, með fyrsta bikarleiknum. Fyrsta var ekki góð vörn, svo góð vörn í tvo leiki í röð og síðan í dag ekki góð vörn. Við höfðum góðan tíma fyrir leikinn og undirbjuggum okkur vel, þess vegna er ég svekktur að við höfum ekki náð að sýna það í dag. Þetta er engin katastrófuleikur hjá okkur en við hefðum þurft að vera talsvert betri til að fá tvö stig.“

Hver eru markmið Norðanmanna fyrir tímabilið?

„Við viljum gera betur en í fyrra, við höfum sagt það. Markmiðið í dag var að vinna og það tókst ekki, þá þurfum við að fara heim og skoða. Næsti leikur er á móti Stjörnunni úti og við þurfum að vinna í því að ná heilsteyptari leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert