Þungunarrof verði leyft í Argentínu

Forseti Argentínu, Alberto Fernandez, hyggst breyta löggjöf í kringum þungunarrof.
Forseti Argentínu, Alberto Fernandez, hyggst breyta löggjöf í kringum þungunarrof. AFP

Alberto Fernandez, forseti Argentínu, staðfesti í dag að hann myndi standa við kosningaloforð sitt um að þungunarrof yrði loksins gert löglegt í landinu. Hann sagði ríkisstjórnina vera að leggja lokahönd á frumvarpið sem brátt yrði lagt fyrir þingið.

„Ég vil ekki að þetta verði enn ein deilan meðal Argentínumanna,“ sagði forsetinn, en djúpur ágreiningur er meðal þjóðarinnar vegna málsins. Stuðningsmenn nýju laganna kröfðust þess á götum úti að forsetinn stæði við orð sín, en margir eru á því að lögin eigi að standa óbreytt.

Aðgerðasinni á vegum Amnesty International leggur vendi af ýmsum kryddum …
Aðgerðasinni á vegum Amnesty International leggur vendi af ýmsum kryddum fyrir framan þinghús Argentínu. Krydd sem þessi eru notuð til að framkalla þungunarrof á efnaminni konum í landinu, og geta verið hættuleg heilsu þeirra. AFP

Eftir margra ára baráttu kvenréttindasinna lofaði forseti landsins að kynna frumvarp sem myndi leyfa þungunarrof í mars, en ekkert varð úr því eftir að kórónuveirufaraldurinn kom til sögunnar og útgöngubann var sett á.

„Á meðan það var allt í gangi voru þungunarrofsaðgerðir samt framkvæmdar og urðu margar konur fyrir skaða eða dóu jafnvel vegna leynilegra og ólöglegra aðgerða,“ sagði forsetinn, samkvæmt AFP-fréttaveitunni.

Þungunarrof í Argentínu er einungis leyfilegt ef fóstur er til komið vegna nauðgunar eða ef líf móðurinnar er í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert