Englandsmeistaraefnin úr leik

Antonio Adán varði vítaspyrnu Gabriels Martinellis og tryggði Sporting um …
Antonio Adán varði vítaspyrnu Gabriels Martinellis og tryggði Sporting um leið sæti í 8-liða úrslitunum. AFP/Glyn Kirk

Arsenal er úr leik í í Evrópudeild karla í knattspyrnu eftir tap gegn Sporting frá Portúgal í 16-liða úrslitum keppninnar í vítaspyrnukeppni í Portúgal í kvöld en fyrri leik liðanna lauk með 2:2-jafntefli í Lundúnum.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1:1 í kvöld en Granit Xhaka kom Arsenal yfir á 19. mínútu áður en Pedro Goncalves jafnaði metin fyrir Sporting á 62. mínútu.

Hvorugu liðinu tókst að skora í framlengingunni og í vítaspyrnukeppninni skoruðu leikmenn Sporting úr öllum fimm spyrnum sínum á meðan Antonio Adán varði fimmtu spyrnu Gabriels Martinellis og Sporting fagnaði sigri.

Roma áfram í 8-liða úrslitin

Þá eru José Mourinho og lærisveinar hans í Roma einnig komnir áfram í 8-liða úrslitin eftir markalaust jafntefli gegn Real Sociedad á Spáni en Roma vann einvígið samanlagt 2:0.

Moussa Diaby og Amine Adli skoruðu mörk Bayer Leverkusen í kvöld gegn Ferencváros í Ungverjalandi en Bayer vann einvígið 4:0.

Þá er Royale Union einnig komið áfram í 8-liða úrslitin eftir samanlagðan 6:3-sigur gegn Union Berlín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert