Handbolti

Fram, FH, Valur og KA/Þór tryggðu sér sæti í undanúrslitum Coca Colabikarsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslandsmeistara KA/Þórs eru komnar í undanúslit.
Íslandsmeistara KA/Þórs eru komnar í undanúslit. Vísir/Hulda Margrét

Leikið var í átta liða úrslitum Coca Cola bikars kvenna í handbolta í kvöld þar sem að Fram, FH, Valur og KA/Þór tryggðu sér öll sæti í undanúrslitum og verða því í pottinum þegar að dregið verður seinna í kvöld.

Íslandsmeistarar KA/Þórs heimsóttu Stjörnuna í Garðabæinn. Eftir að heimakonur höfðu byrjað betur tóku norðankonur við sér og unnu að lokum fimm marka sigur, 28-23.

Valskonur heimsóttu ÍBV til Vestmannaeyja og fóru með fjögurra marka forskot í hálfleikinn, 15-11. Eyjakonur náðu að minnka muninn í eitt mark í upphafi seinni hálfleiks, en þá sigldu Valskonur aftur framúr og unnu að lokum 24-21.

Haukar fengu bikarmeistara Fram í heimsókn þar sem að þær síðarnefndu leiddu með sex mörkum í hálfleik. Þær héldu Haukum í hæfilegri fjarlægð og unnu að lokum 29-25.

Þá mættust einnig 1.deildarliðin Víkingur og FH þar sem að FH-ingar reyndust mun sterkari aðilinn og unnu að lokum öruggan átta marka sigur, 25-17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×