Áhyggjuefni fyrir okkur

Berglind Björg Þorvaldsdóttir fær lítið sem ekkert að spila í …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir fær lítið sem ekkert að spila í París. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir er í landsliðshópi Íslands í fótbolta sem keppir á Pinatar Cup á Spáni síðar í mánuðinum, þrátt fyrir að hafa ekki spilað mínútu með félagsliði sínu París SG í Frakklandi frá 17. september.

Berglind skipti úr Brann í Noregi og yfir til Parísarliðsins fyrir tímabilið, en hefur ekki náð að festa sig í sessi hjá stórliðinu.

„Það er áhyggjuefni að hún spili ekki neitt. Það má ekki vera of langur tími. Þetta er vissulega frekar langur tími þar sem hún hefur ekkert spilað og hún virðist ekki vera inni í myndinni.

Vonandi sér fyrir endann á því,“ sagði landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson um stöðuna hjá Berglindi við mbl.is í dag.

„Þjálfarinn hennar ákveður þetta, en það er áhyggjuefni fyrir okkur að hún spili ekki neitt. Það voru einhver meiðsli hjá henni í haust, en hún er búin að vera heil heilsu síðan fyrir leikinn á móti Portúgal,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert