This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Þorlákur Einarsson
Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands, spáir því að hraunið leiti úr Meradölum í kringum 22. júlí. Eigi hraunið þá í framhaldinu nokkuð greiða leið niður að Suðurstrandarvegi.
„Um leið og það er komið út úr Meradölum þá þurfum við að hafa meiri áhyggjur af Suðurstrandarvegi. Það er ekkert tryggt að það fari þá leið, en full ástæða að skoða málið af fullri alvöru þá.“
Til þess að átta sig á stærð gossins þá segir Þorvaldur um 5 milljónir rúmmetra af þéttu bergi vera komið úr jörðu. Til samanburðar hafi gosið 2022 komið upp með um 11 milljónir rúmmetra en gosið 2021 um 100 milljónir rúmmetra. Því telst stærð gossins nú aðeins um 1/20 gossins 2021.
„Við vitum alls ekki lokaniðurstöðuna. Gosið 2022 var minna en 2021 einfaldlega af því að það stóð skemur. Það stóð í tæpar 3 vikur en hitt gosið stóð í sex mánuði. Ef gosið hættir á morgun þá verður það minnsta af þessum þremur en ef það stendur í fjórar vikur, þá er það næststærst, ræðst alveg eftir því hversu lengi það varir.“
Þorvaldur er alls ekki að spá neinum goslokum, segir það geta staðið vikur eða jafnvel mánuði í viðbót.
„Pokinn sem myndaði aflið í byrjun, sem myndaðist við Litla-Hrút, hefur aldrei tæmst. Það var tekið hratt mikið rúmmál úr honum, en svo nær hann að fylla sig aftur. Jafnvægi milli innflæðis og útflæðis er nokkurn veginn það sama. Það er búið að opna lás, sem er opinn svo lengi sem það er einhver kvika er til að setja upp í gegnum hana. Það hefur alla burði til að malla lengur.“
Þorvaldur hefur líka áhyggjur af gróðureldum. Hann segir flest brunnið sem geti brunnið nálægt gosstöðvunum sjálfum en hraun geti runnið yfir óbrunnið svæði og kveikt frekari elda. Sletturnar úr hrauninu fari ekki nema 100-200 metra leið, þannig að þær eiga ekki að kveikja frekari elda.
„Eins má huga að því ef vindátt breytist. Ef það kemur sterk sunnanátt, þá eru eldarnir ekki að fara yfir gönguleiðina heldur í áttina að höfuðborgarsvæðinu, með meðfylgjandi mengun og óþægindum sem berast þangað.“
Hann segir eldana illa viðureignar, þeir geti brunnið ofan í jörðu og fest sig í rótum. Sömuleiðis geta eldar barist á móti vindi.
„Eldarnir eru vondir fyrir gróðurþekjuna á svæðinu. Það hefur tekið hana langan tíma að myndast, ekki örfá ár heldur árhundruð eða árþúsundir. Hún heldur ryki og öðru niðri líka og fok verður meira ef gróðurinn er ekki til að halda öllu saman,“ segir Þorvaldur að lokum.