Handbolti

Átta strákar í bann vegna veðmálasvindls

Sindri Sverrisson skrifar
Rússneski hópurinn sem keppti á Evrópumótinu í Króatíu í síðasta mánuði.
Rússneski hópurinn sem keppti á Evrópumótinu í Króatíu í síðasta mánuði. m19ehfeuro.com

Stór hluti leikmannahóps U19-landsliðs Rússa í handbolta karla er grunaður um að hafa verið í sambandi við veðmálafyrirtæki og hagrætt úrslitum á Evrópumótinu í Króatíu í ágúst.

Rússarnir voru ekki í riðli með Íslendingum á mótinu og mættust liðin aldrei. Rússland endaði í 15. sæti eftir að hafa tapað gegn Þýskalandi (35-27), Danmörku (38-26), Noregi (29-24), Austurríki (36-19), Frakklandi (36-17) og Ísrael (33-31) en loks unnið Austurríki 31-24.

Um átta leikmenn Rússlands er að ræða og fá þeir ekki að spila í keppnum fyrir hönd rússneska handknattleikssambandsins á meðan á rannsókn stendur en til stendur að taka frekari skref í lok mánaðarins. Siðanefnd sambandsins segir í yfirlýsingu að ekki verði liðið að leikmenn hagræði úrslitum með ólöglegum hætti og að þeim verði refsað án málamiðlana.

„Staðreyndirnar sem siðanefndin hefur lagt fram fylla mig ekki bara reiði heldur miklum vonbrigðum varðandi ungu leikmennina. Fyrir mér eru þetta svik,“ sagði Sergei Shishkarev, formaður handknattleikssambands Rússlands.

„Við erum að leggja mikið á okkur til að koma karlahandboltanum út úr þeirri krísu sem hann hefur verið í síðustu ár. Við getum reynt að bæta umgjörðina en öll heimsins tækni, búnaður og rannsóknir ráða ekki siðferðinu og hugarfarinu sem gerir íþróttafólkinu okkar kleift að keppa fyrir hönd þjóðarinnar,“ sagði Shishkarev.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×