Sandra kemur til greina í vinstri bakvörðinn

Sandra María Jessen í leik með Þór/KA á síðasta tímabili.
Sandra María Jessen í leik með Þór/KA á síðasta tímabili. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Sandra María Jessen, sem er snúin aftur í íslenska A-landsliðshópinn í knattspyrnu eftir þriggja ára hlé, kemur til greina í stöðu vinstri bakvarðar í komandi verkefni liðsins, tveimur vináttulandsleikjum gegn Nýja-Sjálandi og Sviss.

Guðný Árnadóttir og Elísa Viðarsdóttir, tveir leikmenn sem geta leyst báðar bakvarðarstöðurnar, eru ekki í hópnum að þessu sinni vegna meiðsla.

Á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag var Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari spurður hvaða leikmenn væru hugsaðir í bakvarðastöðurnar tvær.

„Kostirnir í bakverðina eru Ásta [Eir Árnadóttir] og Gunnhildur [Yrsa Jónsdóttir] hægra megin. Vinstra megin eru það Áslaug Munda [Gunnlaugsdóttir] og Sandra María,“ svaraði hann.

Sandra María er sóknarmaður að upplagi þar sem hún getur leyst allar stöður fremst á vellinum. Hjá félagsliði sínu Þór/KA hefur hún hins vegar átt það til að leysa stöðu vinstri vængbakvarðar í 3-5-2 leikkerfinu.

Því er það ekki úr lausu lofti gripið að ætla að hún geti leyst stöðu vinstri bakvarðar.

Einn leikmaður tæpur

Í landsliðshópnum að þessu sinni eru flestir við góða heilsu.

„Það er enginn leikmaður sem er ekki spilfær. Reyndar er Arna Sif [Ásgrímsdóttir] smá tæp í dag en ég held að hún verði klár. Hún fékk smá högg en aðrar eru heilar, allavega eins og staðan er í dag,“ sagði Þorsteinn um stöðuna á leikmannahópnum.

Leikirnir fara fram 7. og 11. apríl, fyrri leikurinn gegn Nýja-Sjálandi í Antalya í Tyrkland og sá síðari gegn Sviss í Zürich þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert