Enski boltinn

Full­komnar upp­­­risuna í Leik­húsi draumanna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eriksen í landsleik Danmerkur og Króatíu í júní síðastliðnum.
Eriksen í landsleik Danmerkur og Króatíu í júní síðastliðnum. Lars Ronbog/Getty Images

Christian Eriksen hefur samþykkt þriggja ára samning við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United. Hann á eftir að setja blek á blað og gangast undir læknisskoðun áður en félagið getur tilkynnt Eriksen sem nýjasta liðsmann Rauðu djöflanna. 

Hinn þrítugi Eriksen hefur verið orðaður við Man United að undanförnu en Erik ten Hag, nýráðinn þjálfari Man Utd, er mikill aðdáandi danska miðjumannsins. 

Eriksen fór mikinn með Brentford á síðari hluta síðasta tímabils en hann samdi við félagið eftir að hafa fengið grænt ljós á að halda áfram að spila fótbolta eftir að hafa hnigið niður í leik Danmerkur og Finnlands á EM 2020.

Eftir ítarlegar rannsóknir fékk Eriksen grænt ljós, samdi við Brentford og sneri aftur í danska landsliðið.  Alls spilaði Daninn 11 leiki fyrir Brentford, skoraði eitt mark og lagði upp fjögur til viðbótar. Þá gjörbreytti hann sóknarleik liðsins sem hafði verið orðinn frekar einsleitur áður en hann mætti til Lundúna. 

Eftir að tímabilinu lauk var snemma ljóst að Man United vildi fá Eriksen í sínar raðir og þá vildi Brentford halda honum. Nú hafa vistaskipti hans verið svo gott sem staðfest en David Ornstein, blaðamaður The Athletic, greindi frá.

Það stefnir því allt í að Eriksen muni leika listir sínar í Leikhúsi draumanna, Old Trafford - heimavelli Man Utd, á komandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×