Valur úr leik eftir vítaspyrnukeppni

Valur er úr leik eftir naumt tap fyrir Glasgow City í 2. umferð Meistaradeildar Evrópu kvenna í knattspyrnu. Glasgow hafði betur eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni á Hlíðarenda. 

Glasgow sigraði samtals 5:4 en vítaspyrnukeppnin fór 4:3. Hana þurfti að framlengja rétt eins og leikinn sjálfan. Tvær fyrstu vítaspyrnur Vals fóru forgörðum hjá tveimur af reyndustu leikmönnum liðsins, Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og Hallberu Gísladóttur.

Sandra Sigurðardóttir varði hins vegar tvær af fyrstu þremur spyrnum Glasgow og þá var staðan orðin jöfn eftir þrjár spyrnur hjá hvoru liði. Í sjöttu umferð vítaspyrnukeppninnar skaut Arna Eiríksdóttir framhjá markinu og þá voru úrslitin ráðin en þær skosku voru á undan í vítakeppninni. Elín Metta Jensen, Hlín Eiríksdóttir og Ásdís Karen Halldórsdóttir skoruðu fyrir Val í vítaspyrnukeppninni. 

Afskaplega súr niðurstaða fyrir Valskonur sem voru betri ef eitthvað var í framlengingunni. Liðið hefði átt að fá vítaspyrnu þegar þrjár mínútur voru eftir af framlengingunni þegar Hlín Eiríksdóttir var felld en ekkert var dæmt. Þá voru leikmenn og þjálfarar Vals greinilega ósátt við dómgæsluna þegar Glasgow komst í 1:0. Þá var aukaspyrna dæmt úti á kanti sem Valskonur voru óhressar með. 

Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1:1 og því þurfti að grípa til framlengingar. Fyrirkomulagi keppninnar var breytt vegna heimsfaraldursins eins og í fleiri Evrópukeppnum. Í stað þess að mætast heima og að heiman þá er einn leikur þar sem allt er undir. Þess vegna var leikið til þrautar. 

Glasgow náði forystunni í venjuegum leiktíma. Staðan var 0:0 eftir daufan fyrri hálfleik. Leanne Crichton kom Glasgow yfir af stuttu færi eftir að aukaspyrna var send inn á teiginn. Valskonur náðu að setja kraft í leik sinn þegar leið á og uppskáru jöfnunarmark eftir hornspyrnu. Mist Edvardsdóttir náði að koma boltanum í netið liggjandi eftir hornspyrnu Hallberu. 

Þar með er löngu en óhefðbundnu keppnistímabili lokið hjá Val. Valur sló út HJK frá Helsinki í 1. umferð keppninnar. Í 1. umferð fór Glasgow City einnig áfram í vítaspyrnunni, þá gegn írsku liði. 

Glasgow City sló einnig Val út úr Meistaradeildinni árið 2011. Síðan þá hefur Valsliðið ekki komist í Evrópukeppni þar til í ár. 

Þótt enginn Íslendingur leiki með Glasgow City þá má finna töluverða tengingu við Ísland í leikmannahópi liðsins. Zaneta Wyne var í byrjunarliðinu en hún lék áður með Þór/KA og varð Íslandsmeistari með liðinu. Þeim Mairead Fulton og Lauren Wade var skipt inn á en þær léku báðar hérlendis í fyrra. Fulton með Keflavík og Wade með Þrótti. 

Valur 4:5 Glasgow City opna loka
121. mín. Þær skosku eru á undan í vítaspyrnukeppninni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert