Vantaði upp á markvörsluna í dag

Erlingur Birgir Richardsson og Magnús Stefánsson, þjálfarar ÍBV.
Erlingur Birgir Richardsson og Magnús Stefánsson, þjálfarar ÍBV. Ljósmynd/ÍBV

„Það vantar upp á markvörslu hjá okkur í dag, það verður að viðurkennast. Mér fannst vörnin oft á tíðum halda þokkalega en það vantar oft endahnútinn á þetta. Við gerðum okkur einnig seka um klaufaleg mistök sóknarlega, sem við eigum ekki að vera vanir að gera. Ég hafði alltaf trú á því að við værum að fara að jafna þetta og sigla yfir þá á kafla í síðari hálfleik en það gekk ekki í dag,“ sagði Magnús Stefánsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, strax eftir fimm marka tap ÍBV á heimavelli gegn Valsmönnum í dag, 33:38, er liðin mættust í Olísdeild karla í handknattleik.

Liðin skoruðu mikið í dag en þó nokkuð var um tæknifeila á nokkrum köflum í leiknum, hefði Magnús viljað sjá sína menn aðeins rólegri á boltanum?

„Já, alveg klárlega, það kemur slatti af töpuðum boltum hjá okkur þegar við erum að saxa á þá og gera okkur erfitt fyrir, að sama skapi skora þeir talsvert mikið af auðveldum mörkum á okkur. Þetta verður auðvelt líf fyrir þá.“

Staðan í hálfleik var alls ekki slæm og Eyjamenn einungis tveimur mörkum undir, þá kom fimmtán mínútna kafli þar sem Valsmenn fengu ekki skot varið en vinna samt kaflann með þremur mörkum. Það hefur verið svekkjandi fyrir ÍBV að vinna þann kafla ekki.

„Við náum ekki að stoppa upp í götin varnarlega, það er kannski ósanngjarnt að segja það en við náum ekki að klukka nógu marga bolta á þessum kafla og við vorum að gera okkur seka um of mikið af tæknifeilum sóknarlega sem við erum ekki vanir að vera að gera. Við eigum eftir að skoða þennan leik en það var fullt af flottum hlutum sóknarlega hjá okkur og helling sem við getum tekið út úr þessum leik.“

Eyjamenn léku án fyrirliða síns Kára Kristjáns Kristjánssonar í dag en hvað gerði það fyrir leikskipulag ÍBV?

„Það var mjög vont að missa Kára, hann er ákveðinn prófill hjá okkur inni í liðinu, engu að síður höfum við spilað talsvert á honum Svenna líka. Þetta var ekki eitthvað sem átti að riðla okkar leik og gerði það í raun ekki, þetta voru meira tæknifeilar upp völlinn og í uppbyggingu sókna sem voru mjög dýrkeyptir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert