Kosninganótt líklega spennandi langt fram á morgun

mbl.is/Hari

Allar líkur eru á að kosninganótt á morgun verði spennandi langt frameftir morgni. Jafnvel má búast við að ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar verði fallin eina stundina og haldi velli aðra. 

Eva Heiða Önnudóttir, prófessor í stjórnmálafræði, segir við mbl.is að allar kannanir sýni að mikil spenna muni ríkja um framtíð sitjandi ríkisstjórnar.

Sam­kvæmt nýrri fylg­is­könn­un stjórn­mála­flokka, sem MMR gerði í sam­starfi við Morg­un­blaðið er ríkisstjórnin fallin. Þó þarf afar litlar fylgisbreytingar til þess að hún haldi velli. 

„Það verður örugglega þannig, miðað við kannanir, að fólk sé að detta inn og út af þingi eftir því sem talningu vindur fram. Af því það er svona mjótt á mununum gætum við verið að sjá ríkisstjórnina halda og falla til skiptis eftir því sem tölurnar koma inn,“ segir Eva Heiða. 

Eva Heiða Önnudóttir, doktor í stjórnmálafræði.
Eva Heiða Önnudóttir, doktor í stjórnmálafræði. mbl.is/Golli

Flokkarnir undirbúnir fyrir margflokkaumræður

Óhætt er að spá því að ómögulegt verði að mynda tveggja flokka meirihlutastjórn eftir kosningarnar á morgun. Kannanir sýna einnig að tæpt sé að myndun þriggja flokka ríkisstjórnar sé möguleg, sérstaklega vegna útilokunar Samfylkingar og Pírata á samstarf með Sjálfstæðisflokki. 

Eva Heiða segir að þessi staða sé ekki lengur ný og geti þannig ekki komið formönnum flokkanna á óvart. Spurð að því hvort ekki stefni í langar og strangar stjórnarmyndunarviðræður, segir Eva Heiða að svo verði ekki endilega.

„Ef það eru þrír eða fjórir flokkar að semja sín á milli, þá er ekkert óeðlilegt að það taki lengri tíma en ef það eru tveir flokkar að semja,“ segir hún. 

„Mögulega eru flokkarnir þó núna betur undirbúnir og geri sér fyllilega grein fyrir því að þriggja flokka ríkisstjórn að minnsta kosti verði niðurstaðan. Þannig þeir eru kannski betur undir það búin og eru kannski búnir að fá smá þjálfun í þessu,“ bætir hún við. 

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. Mbl.is/Hari

Skiptir máli hvernig atkvæðin eru talin

Eva Heiða segir að það geti aukið á spennuna á morgun hvernig atkvæði verða talin. Sumir kjörstaðir eru í blandaðri byggð en aðrir sem eykur e.t.v. sviptingar á milli þess sem tölur eru birtar. 

Tökum dæmi: Ef kjósendur í einni kjördeild eru hallari undir einn flokk frekar en annan, verður að blanda atkvæðum vel innan kjörstaðarins alls, svo sem nýjustu tölur frá þeim kjörstað dragi upp sem nákvæmasta mynd af fylgi flokkanna. 

Ef atkvæðum milli kjördeilda er ekki blandað sérstaklega mikið, býður það upp á stærri sviptingar í atkvæðatalningu innan kjörstaðarins alls og þannig innan kjördæmisins alls. 

„Við vitum kannski að kjósendur sem kjósa á einhverjum einum kjörstað eru kannski hallari undir einhverja flokka frekar en aðra, þá þarf að blanda atvkæðunum vel. Annars er kannski einhver einn flokkur í 50% í byrjun kvölds en þegar á líður er hann kannski kominn niður í 15%,“ segir Eva. 

Miklu máli getur skipt hvernig atkvæði innan einstakra kjörstaða eru …
Miklu máli getur skipt hvernig atkvæði innan einstakra kjörstaða eru talin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin leið að spá hvert utankjörfundaratkvæði fara

Til að auka enn frekar á spennuna á morgun hafa hátt í 40 þúsund manns kosið utankjörfundar, fleiri en nokkru sinni fyrr. Eva segir að gjarnan séu utankjörfundaratkvæði talin síðust og að engin leið sé að spá um hvaða flokkar séu líklegir til þess að hljóta góða kosningu þar að lútandi. 

Í forsetakosningunum bandarísku í fyrra gerðu flestir ráð fyrir því að fleiri demókratar en repúblikanar hefðu kosið með svokallaðri póstkosningu. Hér á landi er ekki vitað um hvort kjósendur einhverra flokka frekar en annarra, hafi ríkari tilhneigingu til þess að kjósa utankjörfundar. 

„Þetta hafa verið bara svo fáir þar til núna nýlega að það hefur ekki verið neinn áhugi á því að greina það neitt sérstaklega,“ segir Eva Heiða en bætir því við að það standi til. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert