Horfa til reynslu Framsóknarmanna

„Ég held að það verði afskaplega erfitt að ganga fram …
„Ég held að það verði afskaplega erfitt að ganga fram hjá eins ríkum vilja og kom fram í skoðanakönnuninni sem var gerð,“ segir Gauti Jóhannesson, spurður hvort útlit sé fyrir að sveitarfélagið muni heita Múlaþing.

Viðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknar um meirihluta í sveitarstjórn í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi, sem kennt hefur verið við Múlaþing, munu vonandi ekki taka langan tíma, að sögn Gauta Jóhannessonar, oddvita D-lista Sjálf­stæðis­flokks­ins í sveitarfélaginu.

Gauti segir að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eigi ýmislegt sameiginlegt hvað varðar stefnu í nýju sveitarfélagi. 

„Það sem blasir við er að tryggja að við viljum einhenda okkur í það að þessi sameining og þessi nýja stjórnsýsla virki sem skildi. Í Framsóknarflokknum er gríðarlega mikil reynsla. Þar eru innanborðs fólk sem kom að undirbúningi þessarar sameiningar. Við horfum töluvert mikið til þeirrar reynslu.“

Austurlistinn stærri en Framsókn

Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra menn inn af ellefu í sveitarstjórnarkosningum sem fóru fram um síðustu helgi. Þrír voru kosnir í sveitarstjórn frá Austurlistanum, tveir frá Framsóknarflokknum og einn frá Vinstri grænum og einn frá Miðflokknum. 

Spurður hvort ekki hefði verið eðlilegra að hefja formlegar viðræður við Austurlistann en Framsókn þar sem Austurlistinn var næst stærstur segir Gauti: 

„Ég veit  ekki hvað er eðlilegt og hvað ekki. Þetta var niðurstaðan sem við komumst að eftir að hafa lagst yfir málin.“

Ólíklegt að gengið verði fram hjá vilja fólks um Múlaþing

Mun niðurstaða liggja fyrir bráðlega?

„Ég vonast til þess að þessar viðræður eigi ekki eftir að taka langan tíma. Við erum að einsetja okkur það að nota næstu daga með það að markmiði að klára málefnasamning sem fyrst.“

Höfðu íbú­ar kosið í leiðbein­andi nafna­könn­un um nafnið Múlaþing fyr­ir sveit­ar­fé­lagið, en um er að ræða sam­einað sveit­ar­fé­lag Fljóts­dals­héraðs, Djúpa­vogs­hrepps, Borg­ar­fjarðar­hrepps og Seyðis­fjarðar­kaupstaðar. Niður­stöðurn­ar er ekki bind­andi en ný sveita­stjórn mun velja sveit­ar­fé­lag­inu nafn.

„Ég held að það verði afskaplega erfitt að ganga fram hjá eins ríkum vilja og kom fram í skoðanakönnuninni sem var gerð,“ segir Gauti, spurður hvort útlit sé fyrir að sveitarfélagið muni heita Múlaþing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert