Takmörkuð þjónusta við valin innritunarborð í Leifsstöð

Frá Leifsstöð.
Frá Leifsstöð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdir við töskufæribönd aftan við innritunarborð í brottfararsal flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli hefjast í dag og munu standa fram í apríl.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia, þar sem segir að þær séu liður í endurbótum á töskuflokkunar- og innritunarkerfi í flugstöðinni sem staðið hafi yfir síðastliðin ár. Breytingarnar muni tryggja að kerfið uppfylli þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar séu til þess.

Ekki hægt að skila töskum á borðum 25-42

Farþegar munu verða varir við breytta starfsemi á innritunarborðum 25-42 í brottfararsal flugstöðvarinnar þegar þeir innrita sig þar í flug en ekki verður hægt að skila af sér töskum á þeim borðum.

Farþegum verður þá bent á að fara á annað innritunarborð með töskurnar sem verður sérstaklega tekið frá til að taka á móti þeim. Farþegar eru hvattir til að hafa það í huga fyrir brottför að framkvæmdirnar gætu hægt á innritun við þau borð sem um ræðir. Önnur innritunarborð í brottfararsalnum verða starfrækt í óbreyttri mynd.

Opna fyrr í einhverjum tilvikum

Upplýsingar verða á skjáum í salnum um hvernig farþegum beri að haga innritun við borðin og starfsfólk flugvallarins boðið og búið að aðstoða fólk ef þörf er á.

Þá verða innritunarborð í einhverjum tilvikum opnuð fyrr en vanalega og þá munu flugfélög upplýsa farþega sína um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert