Þetta staðfestir Birgir Helgason, framkvæmdastjóri Dirty Burger and Ribs, sem rekur þrjá staði á höfuðborgarsvæðinu. Rúða hafi verið brotin um tvöleytið eftir miðnætti, peningaskúffan brotin upp og hún tekin.
Skúffan fannst síðar í nágrenni við veitingastaðinn eftir að vegfarandi kom auga á hana síðdegis á sunnudag. Þá var búið að fjarlægja alla skiptimynt en Birgir segir ekki um umfangsmikið tjón að ræða.
„Þetta er hundleiðinlegt auðvitað.“ Þetta sé í annað skiptið sem brotist hafi verið inn með þessum hætti á veitingastaðinn í Fellsmúla um miðja nótt. Í fyrra skiptið hafi brotamaður ekki náð að stela neinu og fljótlega verið handtekinn af lögreglu. Telst það mál því upplýst en innbrotið á sunnudag er nú til skoðunar hjá lögreglu, að sögn Birgis.