Foreldrar forðist óþarfa hópamyndun

Skrúðganga keppnisliða á Rey Cup.
Skrúðganga keppnisliða á Rey Cup. Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson

Fótboltamótið Rey Cup verður haldið í tuttugasta sinn nú um helgina. Mótið í ár er það fjölmennasta í sögu Rey Cup en um 2.000 keppendur eru skráðir til leiks. Keppendur á mótinu eru í þriðja og fjórða flokki og keppa bæði stelpur og strákar á mótinu.

Gunnhildur Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri mótsins, segir að þessi mikla spurn eftir þátttöku í ár skýrist að einhverju leyti af því að lið sem oft fara utan á önnur sambærileg mót eru ekki að fara í ár, sökum faraldursins. 

Annað árið í röð mun ekkert erlent lið keppa á mótinu vegna faraldursins. Mikil hefð er fyrir því að lið komi að utan og taki þátt á Rey Cup. Gunnhildur segir það því miður þurfa að „bíða til 2022“.

Spurð hvort einhverjar sérstakar ráðstafanir verði gerðar sökum stöðu faraldursins segir Gunnhildur: „Við stefnum á að vera með sambærilegar ráðstafanir og við vorum með í fyrra. Þær gengu vel og þrátt fyrir að komið hafi upp smit á mótinu í fyrra dreifðist það ekki meðal keppenda.“

Meðal þeirra ráðstafana eru takmarkað aðgengi að skólunum þar sem keppendur gista, auk þess sé notast við grímur og hanska þegar verið er að meðhöndla matvæli. Einnig er biðlað til foreldra að forðast óþarfa hópamyndun á völlunum og reyna eftir fremsta megni að dreifa sér og nýta svæðið vel. 

Gunnhildur segist vona að ef að allir vandi sig og hugi að sóttvörnum verði hægt að komast hjá því að smit greinist og dreifi sér.

Mótið hefst í dag en fyrstu leikir hófust klukkan eitt. Þá er formleg opnunarhátíð í kvöld að lokinni skrúðgöngu keppnisliða, en á opnunarhátíðinni mun Emmsjé Gauti halda uppi stuði og stemmingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert